Til Bessastaða frá hægri
Nú árið 2024, 80 árum eftir að forseti lýðveldisins var fyrst kjörinn, gerist það að þjóðkjörinn forseti kemur í fyrsta sinn af hægri væng stjórnmálanna til Bessastaða.
Halla Tómasdóttir sigraði í forsetakosningunum í gær (1. júní). Ég óska henni innilega til hamingju. Hennar bíður erfitt verkefni sem hún segist ætla að leysa af hendi með því að sameina þjóðina að baki sér. Að kvöldi kjördags minntist hún sérstaklega á unga fólkið þegar hún þakkaði þeim sem börðust fyrir hana. Hún hefði einnig átt að þakka þeim forystumönnum sem lögðu öðrum frambjóðendum lið fram á síðasta dag en hvöttu svo kjósendur á síðustu stundu til að kjósa Höllu T. í því skyni að koma í veg fyrir að Katrín Jakobsdóttir sigraði.
Greinendur úrslitanna eru sammála um að margir hafi ráðstafað atkvæði sínu á þennan veg þegar á hólminn var komið. Úr úrslitum kosninganna í samanurði við skoðanakannanir megi lesa að ýmsir þeirra sem í könnunum lýstu yfir stuðningi við Höllu Hrund Logadóttur eða Baldur Þórhallsson hafi í kjörklefanum sett kross við nafn Höllu Tómasdóttur og því í reynd kosið gegn Katrínu Jakobsdóttur.
Halla Tómasdóttir ásamt eiginmanni sínum, Birni Skúlasyni (mynd: mbl.is/Kristinn Magnússon).
Fylgi fimm efstu frambjóðenda mbl.is að morgni 2. júní
Vangaveltur um þetta breyta engu um úrslit
kosninganna. Nú árið 2024, 80 árum eftir að forseti lýðveldisins var fyrst
kjörinn, gerist það að þjóðkjörinn forseti kemur í fyrsta sinn af hægri væng
stjórnmálanna til Bessastaða. Allt frá því að Ásgeir Ásgeirsson var kjörinn í
almennri kosningu árið 1952 hafa forsetarnir verið á vinstri stjórnmálavængnum
fram til þess tíma að þeir öxluðu þá ábyrgð að sameina þjóðina.
Það verður spennandi að sjá hvort þetta hefur einhver áhrif á stíl forsetans og tengsl hennar við einstaka þjóðfélagshópa. Sé eitthvað eitt sem Höllu T. hefur orðið tíðrætt um í kosningabaráttunni er það fyrirheit hennar um að efna til „samtals við þjóðina“.
Hvernig að þeirri samtalsmeðferð verður staðið eða hvert verður markmið hennar er óljóst. Sé rétt skilið er hér um opið ferli að ræða til að skapa betra jafnvægi í samfélaginu og auka tengsl milli ólíkra hópa.
Hér eins og annars staðar eykst tilhneiging til að skilgreina sig sem hluta af einhverjum hópi frekar en þjóðfélagsheildinni. Af þessu leiðir spenna milli andstæðra hópa (les: skautun). Málflutningur Katrínar Jakobsdóttur miðaði mjög að því að minnka skautun í samfélaginu.
Hér hefur skortur Höllu Tómasdóttur á virkum stuðningi við Úkraínumenn vegna innrásar Rússa í land þeirra sætt gagnrýni. Sumt af því sem hún segir minnir á það sem kemur frá flokkum sem kenndir eru við öfga hægristefnu í Evrópu eða trumpistum í Bandaríkjunum. Hvort þarna er um útfærða stefnu Höllu T. að ræða eða tilraun til að afla sér fylgis kemur væntanlega betur í ljós eftir tvo mánuði þegar hún flytur innsetningarræðu sína 1. ágúst 2024. Fyrir þann tíma þarf hún að átta sig á hve öflugar varnir skipta miklu fyrir friðinn.
Úrslit kosninganna leiða til þess að Katrín Jakobsdóttir hverfur af vettvangi stjórnmálanna. Ég kynntist henni fyrst þar á árunum 2004 til 2007 þegar við sátum í nefnd um EES-samstarfið og ESB. Alla tíð hef ég reynt hana af heilindum hvað sem líður skoðanaágreiningi. Hún á miklar þakkir skildar fyrir framlag sitt í þágu lands og þjóðar.