25.11.2021 10:34

Þýski stjórnarsáttmálinn og ESB

Það er ekki aðeins í Þýskalandi sem stjórnmála- og stjórnkerfið verður að laga sig að nýjum herrum í Berlín heldur um Evrópu alla.

Nýja ríkisstjórnin í Þýskalandi er kennd við umferðarljós, rauð, gul og græn eftir litum flokkanna sem mynda hana: Jafnaðarmenn (SPD) rauðir, Frjálslyndir (FDP) gulir og Græningjar grænir. Fyrsta þriggja flokka stjórnin af þessu tagi í Þýskalandi.

Jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz, verðandi kanslari, sagði stefnu stjórnarinnar reista á „félagslegri, umhverfisvænni markaðsstefnu“. Því er spáð að Christian Lindner, markaðs- og aðhalssinnaður leiðtogi FDP, verði fjármálaráðherra og Annalena Baerbock, annar leiðtogi Græningja, verði utanríkisráðherra en hinn leiðtogi þeirra. Robert Habeck, fái í sinn hlut nýtt „ofurráðuneyti“ sem nái yfir efnahagsmál, loftslagsmál og orkumál.

S4.reutersmedia.netLeiðtogar þýsku stjórnarflokkanna: Græningjar Robert Habeck og Annalena Baerbock, jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz og FDP-maðurinn Christian Lidner.

Stjórnarmyndunarviðræður hafa staðið Þýskalandi frá því að kosið var 26. september 2021. Niðurstaða þeirra var kynnt með 177 bls. stjórnarsáttmála miðvikudaginn 24. nóvember. Við upphaf viðræðnanna spáðu margir að stjórnarmyndunin kynni að dragast fram yfir áramót vegna ólíkra stefnumála Græningja og FDP. Meðal þess sem flokkarnir sættu sig við að lokum var að Græningjar féllu frá kröfu sinni um að lögfestar yrðu harðar reglur um hámarkshraða bifreiða og FDP samþykkti að hraða ströngum loftslagsvænum aðgerðum.

Flokkarnir eru sammála um að stefnt skuli að „evrópsku sambandsríki“ með breytingum á sáttmála ESB. Þá vilja að þeir að reglum um ESB-þingið verði breytt á þann veg að þingmenn geti flutt frumvörp að nýrri ESB-löggjöf. Þá verði ESB-þingmenn ekki kjörnir af framboðslistum í einstökum ESB-löndum heldur bjóði þeir sig fram á listum sem séu óbundnir af landamærum. Þá vilja þeir að aukinn meirihluti utanríkisráðherra ESB-landa geti tekið ákvarðanir um utanríkismál en neitunarvald einstakra ríkja verði afnumið. ESB eignist með þessu eiginlegan utanríkisráðherra.

Í stjórnarsáttmálanum er ekki tekin afstaða til hvernig flokka beri sjálfbæra fjárfestingu í orkugjöfum. Þetta er hitamál innan ESB. Emmanuel Macron Frakklandsforseti leggur til að kjarnorka falli undir ESB-reglur um sjálfbærar fjárfestingar. Frakkar hafa stofnað til samstarfs við ESB-ríki sem eru hlynnt gasi í því skyni að mynda meirihluta á fundi leiðtogaráðs ESB í desember til stuðnings kjarnorku og gasi sem hluta af sjálfbærum, grænum fjárfestingum.

Stefna nýju þýsku stjórnarinnar snertir mjög aðildarríki ESB vegna áhrifamáttar Þjóðverja innan sambandsins. Á 16 ára stjórnarferli Angelu Merkel sem kanslara var ekki aðeins rætt um hana sem „móður“ Þjóðverja heldur allra innan ESB. Á leiðtogaráðsfundum ESB átti hún almennt síðasta orðið eftir að hafa fyrir ráðsfundina samið við Frakka um hvað ríkisstjórnir landanna vildu.

Það er ekki aðeins í Þýskalandi sem stjórnmála- og stjórnkerfið verður að laga sig að nýjum herrum í Berlín heldur um Evrópu alla. Í vor verður síðan gengið til forsetakosninga í Frakklandi. Emmanuel Macron sýnist nú næsta öruggur um endurkjör. Hann krefst þess að næstu mánuði gerist ekkert á ESB-vettvangi sem veiki stöðu hans. Sé ágreiningur milli Frakka og Þjóðverja lamast ESB-stjórnkerfið.