Þyrlur til næstu sjö ára
Á hinn bóginn blasir við að kröfur til íslenskra yfirvalda um eftirlit á hafsvæðunum umhverfis landið aukast en minnka ekki.
Frá því var greint í Morgunblaðinu 10. apríl að íslenska ríkið hefði samið við norska fyrirtækið Knut Axel Ugland Holding AS um leigja áfram af því til sjö ára með heimild til allt að þriggja ára framlengingar þyrlurnar TF-EIR, sem er af árgerð 2010, TF-GRO, árgerð 2010, og TF-GNA, árgerð 2014. Þyrlurnar komu til landsins á árunum 2019-2021.
Ríkið greiðir 56 milljónir evra, um átta milljarða króna á núverandi gengi, fyrir sjö ára leigutímann, það er rúman milljarð á ári.
Knut Axel Ugland Holding AS var eina félagið sem stóð eftir að loknu mati á fyrirtækjunum CHC Leasing S.A.R.L, Knut Axel Ugland Holding AS, Leonardo Helicopters og The Milestone Aviation Group Limited sem tóku þátt í forvali sem hófst árið 2023. Norska félagið er eignarhaldsfélag sem er með ýmis járn í eldinum.
Á grundvelli leiguútboðs árið 2012 var samið við Knut Axel Ugland Holdings AS 19. janúar 2012. Var landhelgisgæslan með tvær þyrlur, TF-SYN og TF-GNA, af tegundinni AS332L á leigu á vormánuðum 2018 þegar leigusalinn hafði samband og bauð gæslunni að skipta vélunum út fyrir tvær vélar af gerðinni H225, á óbreyttu leiguverði ásamt því að þjálfun á nýja gerð þyrlna yrði útveguð endurgjaldslaust fyrir bæði flugmenn og flugvirkja. Á grundvelli áðurnefnds útboðs voru leigusamningar þyrlnanna framlengdir og óskað eftir að leigusali útvegaði þriðju þyrlu sömu tegundar.
Mynd Landhelgisgæsla Íslands.
Í september 2018 kynnti ríkisstjórnin áform í fjármálaáætlun 2019–2023 um kaup á þremur nýjum björgunarþyrlum fyrir landhelgisgæsluna. Heildarkostnaður var áætlaður um 14,2 milljarðar króna (um 4,7 ma. kr. á hverja þyrlu), þar af 300 milljónir í útboð og ráðgjöf.
Í september 2020 sagði þáv. dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, að undirbúningur á útboði vegna kaupa á þremur nýjum þyrlum hefði verið langt á veg kominn þegar efnahagsaðstæður á árinu 2020 hefðu orðið til þess að fresta þurfti verkefninu.
Með þeim samningi sem nú hefur verið gerður er kaupum á nýjum þyrlum í raun enn slegið á frest.
Á hinn bóginn blasir við að kröfur til íslenskra yfirvalda um eftirlit á hafsvæðunum umhverfis landið aukast en minnka ekki. Þessar kröfur má rekja beint til hagsmuna íslenska ríkisins sjálfs og jafnframt til hagsmuna bandamanna Íslands í Norður-Ameríku og í Evrópu.
Þessum kröfum verður ekki sinnt með þeim þyrlukosti sem verður hér næstu ár að óbreyttu. Þyrlusveit gæslunnar brást við metfjölda útkalla árið 2024 þegar þau voru 334 sem er 31 útkalli meira en árið 2023.
Þyrlurnar eru með 15 eða 45 mínútna viðbragð þegar herþotur sinna æfingum eða loftrýmisgæslu héðan.
Í úttekt sem gerð var árið 2006, þegar ljóst var að bandaríska varnarliðið á Keflavíkurflugvelli myndi kalla þyrlusveit sína með fimm vélum héðan, var talið að íslenska ríkið yrði að ráða yfir fjórum þyrlum til að tryggja 99% þjónustu. Það markmið hefur aldrei náðst. Nú er áreitið meira en þá.