27.11.2020 10:07

Þyrlur og þjóðaröryggi

Sú tilhögun á þyrlurekstrinum sem birtist vegna krafna flugvirkja er algjörlega óviðunandi. Þar er þjóðaröryggi í húfi með lokaábyrgð á forsætisráðherra.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslu Íslands (LHG) að morgni föstudags 27. nóvember 2020 segir að vegna verkfalls flugvirkja og þess að þeir sem vænst var að myndu þrátt fyrir það sinna viðhaldi á þyrlunni TF-GRO hefðu ekki komið til vinnu hefði viðhald á þyrlunni tafist umfram það sem ætlað var. Stefnan hafi verið að taka þyrluna tvo daga úr þjónustu vegna viðhalds, nú þyrfti lengri tíma.

„Lítill hluti hópsins var upptekinn við samningaviðræður í gær en aðrir sem búist hafði verið við mættu ekki,“ segir í tilkynningu LHG.

Verkfall flugvirkja hjá LHG hefur staðið í 22 daga, það er frá 5. nóvember. Landhelgisgæslan sendi flugvirkjum bréf miðvikudaginn 25. nóvember og hvatti þá til að sinna viðhaldi á TF-GRO með vísan til þess að án hennar skapaðist neyðarástand.

„Landhelgisgæslan batt vonir við að samningafundur gærdagsins [26. nóvember hjá ríkissáttasemjara] bæri árangur til að unnt væri að fá flugvirkja stofnunarinnar aftur til starfa. Mikið liggur við að koma TF-GRO í flughæft ástand sem allra fyrst og vinna niður uppsafnað viðhald á öðrum loftförum sem gegna veigamiklu hlutverki við leit og björgun á Íslandi,“ segir í tilkynningu LHG.

Á fundinum 26. nóvember lagði ríkissáttasemjari fram svonefnda „innanhússtillögu“ um að framlengja núgildandi samning til loka næsta árs. Flugvirkjar höfnuðu þeirri kröfu og vilja ekki annað en að kjarasamningur sinn haldi tengingu við aðalkjarasamninga flugvirkja hjá Icelandair. Krafan snertir stöðu flugvirkja í samskiptum við atvinnurekanda. Þar eru hagsmunir Icelandair ráðandi og eru þeir allt aðrir en LHG, snýr það meðal annars að ólíkum flugvélakosti launagreiðendanna.

Thyrluaefing-2-med-tf-gro-a-breidafirdi-21-TF-GRO, mynd LHG.

Það einkennir afstöðu forráðamanna flugvirkja að þeir gera ekki opinberlega grein fyrir þeim úrslitahagsmunum sem þeir telja felast í að láta LHG lúta því sem Icelandair semur við sína menn en launakjörin eru þau sömu.

Þegar lá i loftinu undir lok árs 2005 og ársbyrjun 2006 að Bandaríkjastjórn hefði á prjónunum að hverfa með þyrluflota sinn frá Íslandi ræddi ríkisstjórnin til hvaða úrræða skyldi gripið til að hér yrði tryggð þyrluþjónusta til björgunar og leitar. Var ákveðið að undirbúa aukin umsvif LHG á þessu sviði og allir þættir málsins kannaðir. Lögð var fram áætlun um að með fjórum þyrlum mætti tryggja 99% öryggi. Var stefnan tekin á það og einnig lagt á ráðin um að leigja þyrlur þar til LHG yki þyrlukost sinn. TF-GRO er önnur tveggja leiguþyrlna LHG.

Áform um kaup á nýjum þyrlum hafa verið á döfinni í rúman áratug og hefur verið gert ráð fyrir þeim í nýlegum fjárlagaáætlunum hvað sem nú verður vegna faraldursins.

Sú tilhögun á þyrlurekstrinum sem birtist vegna krafna flugvirkja er algjörlega óviðunandi. Þar er þjóðaröryggi í húfi með lokaábyrgð á forsætisráðherra. Sé öllum tillögum við samningaborðið hafnað verður löggjafinn að láta sig málið varða. Það má til dæmis gera með að skylda leigusala þyrlnanna til að sjá um viðhald þeirra og rekstur. Ríkisrekstur með verkfallsrétti á þessu sviði skilar ekki því öryggi sem krefjast ber.