Þýðingafræði á hugvísindaþingi
Árlegt hugvísindaþing var haldið í Háskóla Íslands á föstudag og laugardag.
Árlegt hugvísindaþing var haldið í Háskóla Íslands á föstudag og laugardag. Sótti ég nokkra fyrirlestra þar í gær, laugardag 10. mars. Fyrst um morguninn hlustaði ég á fjóra fyrirlestra um þýðingafræði. Þeir voru:
Gauti Kristmannsson: Óþýðanleikinn: Afturhvarf til fyrri hugmynda um merkingarfestu eða bara tæki í baráttu fræðigreinanna?
Marion Lerner: Hjáverk taka yfir. Piltur og stúlka í þýskri þýðingu Josefs C. Poestion 1883
Katrín Harðardóttir: Jorge Luis Borges þýðir verk Virginu Woolf: málfræðileg smáatriði eða hugmyndafræðilegt ofbeldi
Rut Ingólfsdóttir: Svifið vængjum þöndum. Um þýðingu á Stílæfingum eftir Raymond Queneau.
Gauti Kristmannsson prófessor ræddi átök innan háskólasamfélagsins um „eignarhald“ á heimsbókmenntunum á milli bókmenntafræðinga og þýðingafræðinga. Þar kemur „óþýðanleikinn“ við sögu því að bókmenntafræðingar segja að ekki sé unnt að skilja og skynja bókmenntir án þess að lesa þær á frummálinu. Ég tek undir með Gauta að án þýðinga lokast bókmenntir inni í afkimum lítilla málsvæða eins og okkur Íslendingum ætti að vera betur ljóst en flestum öðrum.
Um Josef C. Poestion má fræðast hér.
Marion Lerner dósent ræddi um það sem kallað er „hjáverk“ í þýðingafræðinni það er texta þýðandans til hliðar við þýdda textann sjálfan. Poestion, austurrískur embættismaður, fylltist áhuga á Íslandi og íslensku úr fjarlægð og var sjálfmenntaður. Hann var boðinn til Íslands árið 1906. Poestion hefur víða verið getið í íslenskum ritum og 1996 var hans sérstaklega minnst þegar Austurríkismenn færðu Landsbókasafni-Háskólabókasafni bókagjöf.
Katrín Harðardóttir, doktorsnemi í feminískri þýðingafræði, færði rök fyrir því að Jorge Luis Borges hefði brotið gegn kynjareglum í þýðingu á spænsku á bókinni Orlando eftir Virginiu Woolf.
Rut flytur erindi sitt á hugvísindaþingi.
Þegar Gauti talaði um „óþýðanleika“ sagði hann að bókin Exercices de style, Stílæfingar eftir Raymond Queneau væri gjarnan nefnd þegar bent væri á „óþýðanlegan“ texta. Rut, kona mín, hefur þýtt bókina og var hún meistaraverkefni hennar í þýðingafræðum en 24. febrúar 2018 lauk Rut meistaranáminu við HÍ. Á hugvísindaþinginu flutti hún erindi um þýðingu sína.
Hér verða ekki nefnd fleiri erindi sem ég heyrði á þessu fróðlega þingi þar sem hugvísindamenn við háskólann kynna það sem þeir telja að eigi erindi á opinberan vettvang.
Í morgun var Bjarni Benedikt, sonur minn, gestur Ævars Kjartanssonar og Péturs Gunnarssonar í samtalsþætti þeirra um íslenskt mál á rás 1. Hér má hlusta á þáttinn.