11.7.2025 16:03

Þvermóðska, heift, dómgreindarleysi

Ofbeldi af þessu tagi dregur dilk á eftir sér og mótar allt viðhorf til þvermóðsku Kristrúnar Frostadóttur, heiftar Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og dómgreindarleysis Ingu Sæland.

Aðferðin sem stjórnarmeirihlutinn beitti til að safna kjarki til að hverfa frá tilraunum til sátta og beita þess í stað ofbeldi til að þagga niður í andstæðingum sínum er gamalkunn hjá pólitísku ofstopafólki á valdastólum.

Atviki að kvöldi miðvikudagsins 9. júlí þegar Hildur Sverrisdóttir, Sjálfstæðisflokki, sat á forsetastóli alþingis og sleit fundi kl. 23.39 varð um nóttina breytt í dramatískan leikþátt ráðherra sem hófst strax og þing kom saman kl. 10.00 að morgni fimmtudagsins 10. júlí.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra flutti yfirlýsingu í upphafi þingfundar og sagði fordæmalausa og nýja stöðu komna upp í íslenskum stjórnmálum. Vegna málþófs minnihlutans væri staðan orðin erfið „fyrir lýðræðið og stjórnskipan landsins“. Nú væri í húfi „að lýðræðið virki “. Það væri skylda hennar sem forsætisráðherra að standa vörð um lýðræði í landinu. „Ég lýsi því yfir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans á Alþingi: Við munum verja lýðveldið Ísland. Við munum verja stjórnskipan landsins og heiður Alþingis,“ sagði forsætisráðherra.

Á þessari stundu gat Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra ekki látið hjá líða að sparka í sinn gamla flokk, Sjálfstæðisflokkinn. Hann hóf hana til æðstu metorða en hún glataði þeim í bankahruninu þegar athygli beindist að fjármálum hennar. Árið 2013 vildi hún snúa aftur og heimtaði fyrsta sæti í SV-kjördæmi. Þegar hún fékk það ekki tók hún þátt í að stofna Viðreisn og leið ekki á löngu þar til hún ýtti stofnformanni flokksins til hliðar. Framganga hennar nú bendir til að hún vilji ná fram hefndum gegn útgerðarmönnum sem höfnuðu henni sem framkvæmdastjóra samtaka sinna á sínum tíma.

Allt tal hennar um misnotkun á reglum lýðræðisins tekur mið af henni sjálfri. Um miðjan dag 10. júlí stillti hún sér upp á bryggju á Grundartanga með kjarnorkuknúinn, bandarískan kafbát í bakgrunni og sagði við blaðamann Vísis: „Eftir þessa uppákomu í gær [þegar Hildur sleit þingfundi] og hafandi horft á það hvernig stjórnarandstaðan er að haga sér finnst mér við vera komin svolítið í að það er orrustan um Ísland.“

Utanríkis- og varnarmálaráðherra sem svona talar stjórnast af heift.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hafði ekki úr háum söðli að detta þegar niðurstaða hennar var að minnihluti alþingis vildi stjórnleysi og kaos og hér ætti ekki að „að þurfa að draga þá [valdhafa] undir húsvegg og skjóta þá eins og [væri] í mörgum löndum þar sem í rauninni [ríkti] algjört kaos“.

Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, sakaði Hildi Sverrisdóttur um „valdarán“.

Það er engin furða að Guðmundi Inga dytti þetta í hug. Hann vissi líklega um leyndarmálið mikla, að ætlun ríkisstjórnarinnar var að fremja valdarán með því að gera minnihlutann á alþingi óvirkan.

Hamagangurinn í spunaliðum stjórnarflokkanna magnaðist á Facebook. Einn dyggur stuðningsmaður stjórnarinnar spurði hvers vegna lögregla og sérsveit hefðu ekki verið kölluð á vettvang, líklega til að handtaka Hildi Sverrisdóttur. Annar skrifaði stjórnmálafræðilega hugleiðingu síðdegis 10. júlí sem hófst á þessum orðum: „Við erum stödd í miðri valdaránstilraun.“

1581446Þórunn Sveinbjarnardóttir forseti Alþingis (mynd:mbl.is/Eyþór).

Að morgni föstudagsins 11. júlí lét meirihluti alþingis til skarar skríða. Þórunn Sveinbjarnardóttir þingforseti lagði til að beitt yrði 2. mgr. 71. gr. þingskapalaga og 2. umræðu um veiðigjaldið hætt.

Forseti færði rök fyrir tillögu sinni og sagðist hafa tekið ákvörðun sína að vel ígrunduðu máli og á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Ákvæðinu hefði ekki verið beitt eftir að alþingi var gert að einni málstofu 1991. Frá þeim tíma væru nokkur dæmi þess að umræður um einstök mál hefðu dregist á langinn, en yfirleitt hefði náðst samkomulag um afgreiðslu þeirra.

Nú hefðu umræður um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjald á yfirstandandi löggjafarþingi staðið í heild yfir í tæpar 160 klukkustundir þar sem 3.392 ræður hefðu verið haldnar. Forseti teldi að enn væri langt á milli manna og að ekki yrði lengra komist í viðræðum þingflokksformanna eða formanna stjórnmálasamtaka um samkomulag um afgreiðslu málsins.

Tillagan var samþykkt með 34 atkvæðum gegn 20.

Þingmeirihluti hefur í hendi sér að beita 2. mgr. 71. gr. þingskapalaga. Aðdragandinn að því að það var gert núna staðfestir að Kristrún Frostadóttir var komin upp að vegg sem forsætisráðherra. Það er þvermóðska hennar sem birtist í því sem hér er lýst. Hún hefur hvorki þrek til að leiða mál til lykta með samkomulagi né til að beita ákvæði í þingskapalögunum án tilbúinnar átyllu um að hún væri að vernda lýðveldið vegna þess klukkan hvað sitjandi þingforseti sleit þingfundi!

Síðdegis 10. júlí ræddu þær saman á fundi forsætisnefndar Hildur Sverrisdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir þingforseti og sagði Þórunn í Morgunblaðinu 11. júlí að vissulega hefði verið óheppilegt að þetta skyldi gerast með þessum hætti en þær hefðu rætt það og í rauninni þyrfti ekki að ræða það meir. Í viðtali við fréttastofu ríkisútvarpsins 10. júlí kvaðst Þórunn axla fulla ábyrgð sem henni bæri sem forseta þingsins og að hún féllist á skýringu Hildar að hún hefði slitið fundi í góðri trú. „Auðvitað ber mér að sjá til þess að varaforsetar og aðrir séu upplýstir um hvernig þetta gangi hjá okkur,“ sagði Þórunn við fréttastofuna.

Allt ber að sama brunni: ráðherrar og spunaliðar þeirra gerðu úlfalda úr mýflugu til að réttlæta takmörkun málfrelsis á alþingi svo þeir gætu þvælt illa unnu skattafrumvarpi sínu í gegnum þingið.

Ofbeldi af þessu tagi dregur dilk á eftir sér og mótar allt viðhorf til þvermóðsku Kristrúnar Frostadóttur, heiftar Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og dómgreindarleysis Ingu Sæland. Landinu verður hvorki vel stjórnað né friðsamlega undir þessu þríeyki.