Þungt regluverk kosninga
Þessa skipan á undirbúningi þess að alþingismenn segi lokaorðið um hvort þeir séu löglega kjörnir má segja dæmigerða fyrir regluverkið sem hvarvetna er innleitt í þeim yfirlýsta tilgangi að bæta stjórnarhætti.
Kosið var til alþingis 30. nóvember og 21. desember tók ráðuneyti Kristrúnar Frostadóttur til starfa. Er talið að ríkisstjórnin njóti stuðnings 36 þingmanna (Samfylking 15, Viðreisn 11, Flokkur fólksins 10). Þetta er orðað með þessum fyrirvara þar sem þing hefur ekki komið saman og umsögn landskjörstjórnar hefur ekki verið birt.
Á vefsíðu alþingis segir að landskjörstjórn hafi úthlutað þingsætum til nýkjörinna þingmanna 10. desember sl. Síðan hófst sjö daga kærufrestur, sem rann út 17. desember. Að honum loknum fer landskjörstjórn yfir framkomnar kærur og skilar alþingi rökstuddri umsögn um þær. Þessu ferli er ekki lokið en talið er að því ljúki eigi síðar en um miðjan janúar að sögn Kristínar Edwald, formanns landskjörstjórnar.
Eftir að umsögn landskjörstjórnar liggur fyrir tekur undirbúningsnefnd alþingis fyrir rannsókn kosninga við ferli ákvarðana um hvort úrslit kosninganna séu gild. Að loknu starfi undirbúningsnefndarinnar kemur kjörbréfanefnd kosin af alþingi til sögunnar. „Endanleg staðfesting á kosningunni er þó í reynd ekki fyrr en á fyrsta þingfundi þegar kjörbréfanefnd skilar áliti sínu og tillögu sem þingheimur greiðir atkvæði um,“ segir á vefsíðu þingsins.
Þingmaður Flokks fólksins sem átti sæti í forsætisnefnd fráfarandi þings, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, er starfandi forseti alþingis á þessu rannsóknartímabili en Birgir Ármannsson fráfarandi þingforseti bauð sig ekki fram til endurkjörs. Ásthildur Lóa sagði í samtali við Morgunblaðið föstudaginn 3. janúar að þing gæti mögulega komið saman í lok janúar.
Mánudaginn 6. janúar eiga þingflokksformenn (hafa þeir allir verið kjörnir?) að skipa þingmenn í undirbúningsnefndina fyrir rannsókn kosninga. Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn skipa tvo fulltrúa hver en Flokkur fólksins, Miðflokkurinn og Framsókn skipa einn fulltrúa hver.
Allt er þetta í samræmi við kosningalög sem alþingi samþykkti í júní 2021 og gengu í gildi 1. janúar 2022. Þá kom landskjörstjórn í stað dómsmálaráðuneytisins. Nefndin var gerð að sjálfstæðri stjórnsýslueiningu til að samhæfa framkvæmd kosninga. Undirbúningsnefnd alþingis kom þá einnig til sögunnar. Reynir nú á þetta skipulag allt í fyrsta skipti.
Í 46. gr. stjórnarskrárinnar segir að alþingi skeri sjálft úr, hvort þingmenn þess séu löglega kosnir, svo og úr því, hvort þingmaður hafi misst kjörgengi.
Þessa skipan á undirbúningi þess að alþingismenn segi lokaorðið um hvort þeir séu löglega kjörnir má segja dæmigerða fyrir regluverkið sem hvarvetna er innleitt í þeim yfirlýsta tilgangi að bæta stjórnarhætti.
Í ferlinu miðju ákveða 36 fulltrúar þriggja flokka sem úthlutað hefur verið þingsætum að taka höndum saman um myndun ríkisstjórnar. Þingræðisreglan gildir og ný ríkisstjórn tekur við af starfsstjórn á grundvelli sáttmála sem þessir 36 fulltrúar styðja enda vita þeir að ákvörðun um gildi kjörbréfa þeirra er í þeirra eigin höndum.
Er þetta regluverk vegna þingkosninga allt nauðsynlegt? Hver er raunverulegur tilgangur þess?