4.6.2019 9:59

Þrjátíu ár frá blóðbaðinu í Peking

Kínversk yfirvöld hafa aldrei svarað spurningum um mannfallið en mat margra er að þeir sem féllu skipti hundruðum ef ekki þúsundum.

Í apríl 1989 söfnuðust meira en ein milljón manna saman á Torgi hins himneska friðar (Tiananmen-torginu) í Peking og lýstu yfir stuðningi við lýðræðislegar umbætur í Kína. Með þessu hófust mestu pólitísku mótmælin í Kína frá því að kommúnistar náðu völdum í landinu árið 1949. Mótmælin stóðu í sex vikur.

Aðfaranótt 4. júní sendu stjórnvöld skriðdreka inn á torgið og hermenn beittu skotvopnum gegn vopnlausum mótmælendum og féllu margir þeirra í valinn.

Eftir aðförina fullyrtu yfirvöldin að enginn hefði verið drepinn á torginu sjálfu.

_107211234_tiananmen_protestTalið er að um milljón manns hafi komið saman til að mótmæla á Torgi hins himneska friðar vorið 1989.


Í tilefni af því að 30 ár eru nú liðin frá innrás kínverska hersins á torgið gagnrýndi Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kínversk stjórnvöld fyrir framgöngu þeirra í mannréttindamálum og hvatti þau til að birta tölur um fjölda þeirra sem týndu lífi vegna aðgerða hersins.

Talsmaður kínverska sendiráðsins Washington svaraði utanríkisráðherranum og sagði orð hans sýna „lítilsvirðingu í garð kínversku þjóðarinnar“.

Kínversk yfirvöld hafa aldrei svarað spurningum um mannfallið en mat margra er að þeir sem féllu skipti hundruðum ef ekki þúsundum.

Pompeo sakaði stjórn Kína um að ráðast gegn mannréttindum hvenær sem það þjónaði hagsmunum þeirra. Nefndi hann sem dæmi upprætingu Uighur-fólksins í Xinjiang-héraði.

Eftir blóðbaðið á torginu 4. júní 1989 hófu kínversk stjórnvöld ofsóknir á hendur aðgerðasinnum úr hópi námsmanna og kennara sem studdu lýðræðishreyfinguna. Margir flýðu land og leituðu hælis erlendis, meðal annars í Bandaríkjunum og Frakklandi. Aðrir voru handteknir og dæmdir til fangelsisvistar. Ríkisstjórnin sleppti þeim lausum eftir nokkur ár vegna alþjóðlegs þrýstings. Síðan hafa stjórnvöld og kommúnistaflokkurinn að nýju hert tökin á samfélaginu.

Í tilefni af 30 ára afmælinu sendi BBC fréttamann sinn út á götu í Peking með myndir frá atburðunum á torginu í tölvu sinni. Má sjá undrunarsvip á ungu fólki sem hafði aldrei séð myndirnar og vissi jafnvel ekki um hvað gerðist enda er vandlega þagað yfir því að fyrirmælum yfirvalda. Einn eldri maður spyr fréttamanninn reiðilega hver leyfi að þessar myndir séu sýndar.

Í aðdraganda afmælisins vakti athygli að kínverski varnarmálaráðherrann vék að atburðunum í ræðu erlendis. Hann sagði: „Þetta var pólitísk ókyrrð og ríkisstjórnin greip til aðgerða til að stöðva ókyrrðina, sem er rétt stefna.“ Vegna þessara viðbragða „hafa Kínverjar notið stöðugleika og þróunar,“ sagði hann.

Á vefsíðu BBC segir að í dag, þriðjudag 4. júní, sé mikil öryggisgæsla á Torgi hins himneska friðar. Lögreglumenn skoði persónuskilríki vegfarenda sem komi inn á torgið. Mörgum erlendum blaðamönnum var bannað að fara inn á torgið. Þeim sem það fengu var bannað að taka myndir.

Víða um heim, meðal annars í Hong Kong, eru skipulagðir útifundir í dag til að minnast atburðanna fyrir 30 árum og sýna þeim samstöðu sem enn sæta kúgun í Kína vegna skoðana sinna.