1.11.2019 11:10

Þrjár ófrægingargreinar um EES-skýrslu

Hér hefur verið vikið að þremur ófrægingargreinum í Morgunblaðinu um skýrsluna um EES-samstarfið. Í engri þeirra er haggað við nokkru sem birtist í texta okkar.

Guðmundur Franklín Jónsson fjármálamaður og hótelstjóri á Borgundarhólmi stofnaði 17. júní árið 2010 stjórnmálaflokkinn Hægri grænir, flokk fólksins, og hélt honum úti til ársins 2016. Hann sagði sig hins vegar ekki úr Sjálfstæðisflokknum fyrr en með opinberri yfirlýsingu um miðjan júni 2019 og flaggaði því þá að hann hefði verið flokksbundinn sjálfstæðismaður í meira en þrjátíu ár.

Mánudaginn 28. október 2019 birtist grein eftir hann í Morgunblaðinu þar sem hann segir okkur sem skrifuðum 301 bls. skýrslu um EES-samstarfið sem kom út 1. október 2019 hafa gert það „með fyrirframpöntuðum niðurstöðum“. Órökstudd ásökunin er sett fram til að gera lítið úr miklu starfi. Greinin er vísvitandi tilraun til blekkinga eins og þegar hann sagðist hafa verið flokksbundinn sjálfstæðismaður í rúm þrjátíu ár en hafði samt stofnað eigin stjórnmálaflokk sjálfum sér til dýrðar.

Í EES-skýrslunni segir að við gerð hennar hafi verið rætt við 147 viðmælendur og aðeins tveir, Frjálst land og Nei til EU, lýst andstöðu við EES-aðildina. Sigurbjörn Svavarsson, forystumaður Frjáls lands, birtir grein í Morgunblaðinu 28. október 2019 til að hallmæla EES-skýrslunni. Gagnrýni hans snýst um að stjórnvöld grípi til blekkinga með tölfræði að vopni þegar rætt er um fjölda laga hér með beinar rætur í EES-samningnum. Í skýrslunni er birtur listi yfir þessi lög frá 1992 til 2019 og sagt að hlutfallið sé 16% af settum lögum á tímabilinu. Þetta segir Sigurbjörn að sé blekking en kýs í raun að skrifa um eitthvað annað enda getur hann ekki hrakið það sem segir í skýrslunni um þetta. Þar eru öll gögn lögð á borðið.

IMG_0272-smallHöfundar EES-skýrslunnar: Bergþóra Halldórsdóttir, Kristrún Heimisdóttir og Björn Bjarnason. (Mynd utanríkisráðuneytið.)

Í Morgunblaðinu í dag (1. nóvember) birtist þriðja greinin af sama meiði eftir Gústaf Adolf Skúlason, félagsmálafrömuð í Svíþjóð. Hann telur, líklega í tilefni hrekkjavökunnar, að með EES-skýrslunni hafi „draugur vinstristjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur verið endurvakinn“! Fyrir okkur skýrsluhöfundum vaki að búa til „ESB-hirð“ þegar lagt er til að vinnan að EES-málum fyrir Íslands hönd sé sett undir markvissari stjórn án þess að á nokkrum stað sé hvatt til fjölgunar þeirra sem að þessum málum vinna. Hann segir okkur vilja gera „Ísland að amti í ESB“ enda séum við „kerfisfólk“. Virðist Gústaf Adolf hafa átt erfitt með að skilja texta okkar, hann sé aðeins fyrir „sérfræðinga“.

Þetta skýrir kannski hvers vegna hann heldur því fram við viljum „lögleiða ... stjórnarskrárbrot með sérstökum kafla í nýrri stjórnarskrá“. Þetta er hvergi orðað. Við segjum:

„Binda verður enda á stjórnlagaþrætur vegna EES-aðildarinnar, annaðhvort með því að viðurkenna að hún hafi áunnið sér stjórnlagasess eins og aðrar óskráðar stjórnlagareglur eða með því að skrá ákvæði um aðildina í stjórnarskrána.“

Við gerð þessarar skýrslu sannfærðist ég um að ekkert þyrfti að hrófla við stjórnarskránni vegna EES-aðildarinnar. Í 25 ár hefur verið unnt að standa að aðildinni í samræmi við stjórnarskrána og 18 lögfræðileg álit sem gerð hafa verið vegna samstarfs okkar við ESB innan EES og í Schengen-samstarfinu. Ekki þarf annað en heilbrigða skynsemi til að átta sig á því að í aðildinni felist ekki stjórnarskrárbrot.

Hér hefur verið vikið að þremur ófrægingargreinum í Morgunblaðinu um skýrsluna um EES-samstarfið. Í engri þeirra er haggað við nokkru sem birtist í texta okkar. Ómálefnalegust er grein Gústafs Adolfs Skúlasonar.