Þriðji orkupakkinn í þagnargildi
Hvergi í uppgjörsblaði Markaðarins er vikið að aðildinni að evrópska efnahagssvæðinu (EES). Hún er svo sjálfsögð umgjörð í íslensks atvinnu- og fjármálalífs að ekki þarf að ræða hana sérstaklega.
Í Markaðnum fylgiblaði Fréttablaðsins er í dag uppgjör við innlenda markaðsárið 2019. Þar segir meðal annars:
„Álitsgjafar Markaðarins segja að með vel heppnaðri erlendri skráningu og því að fá stóra erlenda fjárfesta í hluthafahópinn hafi Árni Oddur, viðskiptamaður ársins, gert það sem engum Íslendingi hefur áður tekist eftir hrunið 2008.“
Fyrir utan að velja Árna Odd viðskiptamann ársins komast álitsgjafar Markaðarins að þessari niðurstöðu um bestu viðskipti ársins:
„Ávöxtun FISK-Seafood [Kaupfélags Skagfirðinga] af viðskiptum með bréf Brims nam nokkrum þúsundum prósenta á ársgrundvelli. Hlutu yfirburðakosningu sem viðskipti ársins. Byggt upp reksturinn með vel tímasettum kaupum á kvóta og fyrirtækjum.“
Um verstu viðskiptin segir í Markaðnum:
„Kaup á skuldabréfum fasteignafélagsins Upphafs [í stýringu hjá Gamma] um mitt ár eru verstu viðskipti ársins að mati dómnefndar Markaðarins. Skömmu síðar kom í ljós að eigið fé Upphafs var ekkert og félagið glímdi við lausafjárþröng. Málið sagt hafa skaðað ímynd og orðspor Kviku.“
Að sögu Marels er vikið í skýrslunni um EES-samstarfið sem kom út 1. október. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, var forstjóri Marels árin 1999 til 2009. Hann sagði í samtali við 25 ára afmælisblað Viðskiptablaðsins í apríl 2019:
„Ég held í raun og veru að fyrirtæki eins og Marel og Össur hefðu ekki orðið til í þeirri mynd sem þau eru hefðum við ekki orðið aðilar að evrópska efnahagssvæðinu. Þau höfðu vissulega orðið til en þau hefðu ekki þróast á sama hátt. Markaðsaðgangurinn og frjálst flæði vörunnar og þjónustunnar skipti miklu. Þessi frjálsi aðgangur að markaðnum gerði það að verkum að við gátum keypt hráefni í okkar vörur án tolla. Þau fyrirtæki sem Marel var að keppa við á þessum tíma voru evrópsk og ef við hefðum þurft að kaupa inn hráefni með tollum og selja svo tilbúnar vörur með tollum þá hefði það gert okkur erfitt fyrir.“
Hvergi í uppgjörsblaði Markaðarins er vikið að aðildinni að evrópska efnahagssvæðinu (EES). Hún er svo sjálfsögð umgjörð í íslensks atvinnu- og fjármálalífs að ekki þarf að ræða hana sérstaklega.
Fyrir ári var alið á óvissu um EES-aðildina með óttafullum yfirlýsingum um framtíð fullveldisins og ráð yfir orkulindunum ef svonefndur þriðji orkupakki ESB yrði innleiddur hér á landi. Pólitísk óvissa ríkti um málið þar til 21. mars 2019 þegar þingflokkar stjórnarflokkanna tóku af skarið um stuðning sinn við það. Í maí og byrjun júní 2019 efndi Miðflokkurinn til lengsta málþófs í sögu alþingis um orkupakkann. Virtist enginn endir á hrakspánum. Að lokum varð pakkinn innleiddur með miklum meirihluta atkvæða á alþingi 2. september 2019.
Hér var því hvað eftir haldið fram að andstæðingar málsins gerðu úlfalda úr mýflugu. Í stóru EES-samhengi skipti þriðji orkupakkinn engu máli. Þessi litla þúfa gæti þó velt þungu hlassi. Í áramótauppgjöri Markaðarins minnist enginn á þriðja orkupakkann. Hann hefði aðeins valdið tjóni, hefði honum verið hafnað.