22.3.2019 10:50

Þriðji orkupakkinn á alþingi

Innleiðing þriðja orkupakkans hefur verið á borði íslenskra stjórnvalda í tæpan áratug. Það er þó ekki nema um eitt ár liðið frá því að hann var gerður að einskonar ESB-ófreskju hér á landi.

Í Morgunblaðinu í morgun (22. mars) birtist þessi frétt:

„Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ræddi meðal annars um þriðja orkupakka Evrópusambandsins á fundi sínum í gær. Sex þingmenn flokksins hafa opinberlega lýst efasemdum vegna málsins. Samkvæmt heimildum mbl.is er búist við því að frumvörp vegna þriðja orkupakkans verði kynnt öðrum hvorum megin við helgi, en ekki er ljóst hvað í þeim felst.

Ítrekaðar tilraunir mbl.is í gær til þess að afla upplýsinga um hvenær kynning yrði haldin og hver hefði orðið niðurstaða fundar sjálfstæðismanna voru árangurslausar.

Komið til móts við gagnrýni?

Heimildarmenn mbl.is telja að komið hafi verið verulega til móts við þá gagnrýni sem málið hefur fengið. Aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra upplýsir að ráðherrann hyggist ekki tjá sig umfram það sem kom fram í samtali hans við mbl.is í fyrrakvöld.

Þá sagði Guðlaugur Þór að stefnt væri að því að frumvörp vegna þriðja orkupakkans yrðu lögð fram áður en frestur til þess að koma með þingmál fyrir Alþingi rennur út þann 30. mars.“

Innleiðing þriðja orkupakkans hefur verið á borði íslenskra stjórnvalda í tæpan áratug. Það er þó ekki nema um eitt ár liðið frá því að hann var gerður að einskonar ESB-ófreskju hér á landi fyrir tilstuðlan Norðmanna sem urðu undir á heimavelli þegar stórþingið samþykkti pakkann.

1317932_Groovy-pylon-3-_BS_Hér hefur ýmsum ráðum verið beitt gegn orkupakkanum. Því er meira segja haldið fram að í krafti hans geti einhver öfl (djúpríkið?) innan ESB lagt undir sig allar orkulindir þjóðarinnar. Þetta eru mögnuð ósannindi. Ekkert ríki innan ESB hefur afsalað sér ráðum yfir eigin orkulindum. Hvers vegna skyldi slíkt eiga við um ótengda eyju úti í reginhafi?

Önnur fráleit fullyrðing er að innleiðing orkupakkans jafngildi því að erlendir aðilar geti komið hingað og stungið sæstreng í samband við íslenskt grunnvirki – án þess að íslensk stjórnvöld hafi nokkuð um það að segja.

Megni frumvörpin sem sagt er frá í frétt Morgunblaðsins að ýta þessum firrum út af borðinu ætti eitt ágreiningsefnið að hverfa. Að banna mönnum að berja hausnum við steininn er vonlaust, staðreyndir hljóta þó að ráða að lokum – eða er sá tími liðinn?