18.6.2021 10:56

Þrengt að sósíalistum

Sagan segir að fjöldaþátttaka í stefnumarkandi aðgerðum hefur mikil áhrif. Varla er stuðningur við stefnu skýrar staðfestur en með því að veðja á hana með eigin fé.

Árið 1974 olli undirskriftasöfnun Varins lands þáttaskilum í umræðunum um dvöl bandaríska varnarliðsins hér á landi. Fyrsta vinstri stjórnin, 1956 til 1959, var meðal annars mynduð með þeim ásetningi að loka Keflavíkurstöðinni. Sá ásetningur varð að engu.

Á sjöunda áratugnum, tíma viðreisnarstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, hófust Keflavíkurgöngurnar til að efla samhug herstöðvaandstæðinga. Á sjöunda áratugnum var einnig tekist á um Kanasjónvarpið svonefnda. Því var lokað þegar ríkissjónvarpið hóf göngu sína en áður höfðu tugþúsundir andmælt lokuninni með undirskrift sinni. Nú þykir álíka sérkennilegt að barist var gegn lokun erlends sjónvarps hér og að gengið var frá Keflavík ár eftir ár gegn varnarsamstarfinu.

Vinstri stjórn var mynduð að nýju árið 1971. Hún hafði lokun Keflavíkurstöðvarinnar á stefnuskrá sinni. Vegna þeirra áforma tók hópur einstaklinga sig saman undir merkjum Varins lands snemma árs 1974 og safnaði á nokkrum vikum 55.522 undirskriftum undir áskorun á hendur stjórnvöldum um að hverfa frá ótímabærum áformum um lokun Keflavíkurstöðvarinnar.

Sumarið 1974 vann Sjálfstæðisflokkurinn einn sinn mesta kosningasigur og myndaði ríkisstjórn með Framsóknarflokknum. Stefnan í varnarmálum gjörbreyttist og á níunda áratugnum gekk Keflavíkurstöðin í endurnýjun lífdaga þótt herstöðvaandstæðingar í Alþýðubandalaginu ættu aðild að ríkisstjórn, lokun stöðvarinnar varð ekki lengur baráttumál.

Bourse-building-growth-chart-growing-chart-bourse-building-green-background-109842071Frá bankahruninu haustið 2008 hafa talsmenn ríkiseigna og ríkisreksturs látið mikið að sér kveða í umræðum um efnahags- og atvinnumál. Þótti þeim hrunið gefa stefnu sinni byr undir báða vængi; hindra beri þátttöku almennings í atvinnurekstri og beita stórfyrirtæki og eigendur þeirra harðræði. Þeir sem lengst ganga vilja að úgerð sé stunduð í járngreip ríkisvaldsins.

Andstaða við að ríkið losi um tök sín á fjármálakerfinu kom skýrt í ljós í umræðum um sölu á litlum hluta eignar ríkisins í Íslandsbanka.

Þessar raddir áttu ekki almennan hljómgrunn. „Stærstu tíðindin, sem ættu að hafa langvarandi áhrif á markaðinn, felast í því að hluthafar bankans eftir útboðið verða um 24 þúsund, mesti fjöldi hluthafa allra fyrirtækja í Kauphöllinni,“ segir Hörður Ægisson í leiðara Fréttablaðsins í dag (18. júní). Hann segir einnig:

„Ekkert af því sem úrtölufólkið hélt fram um söluferlið, sem var eins vitlaust þá og nú þegar niðurstaða útboðsins liggur fyrir, stóðst skoðun. Vel á þriðja tug þúsunda fjárfesta sýndu með fjöldaþátttöku sinni að þeir gáfu einnig lítið fyrir holan málflutning þessa hóps. Eftir að hafa siglt sölu og skráningu Íslandsbanka farsællega í höfn hefur ríkisstjórnin, einkum Sjálfstæðisflokkurinn, styrkt stöðu sína í aðdraganda kosninga.“

Sagan segir að fjöldaþátttaka í stefnumarkandi aðgerðum hefur mikil áhrif. Varla er stuðningur við stefnu skýrar staðfestur en með því að veðja á hana með eigin fé. Nú ber að halda áfram á sömu braut og losa um ríkisrekstur og ríkisafskipti, það er besta leiðin til að ná markmiðunum um báknið burt.