16.5.2024 10:31

Þórunn sækir að Kristrúnu

Verra verður ástandið varla að mati Þórunnar. Hún hefði átt að segja söguna til enda og nefna þá sem hófu að dansa eftir pípu Bjarna.

Deilan um útlendingamál er mikil og djúpstæð innan Samfylkingarinnar eins og meðal annars birtist á flokksstjórnarfundi hennar 20. apríl 2024 þar sem stuðningsmenn Kristrúnar Frostadóttur flokksformanns vísuðu tillögu áhugamanna um málefni innflytjenda til nefndar í stað þess að taka efnislega afstöðu til hennar.

Kristrún breytti útlendingastefnu Samfylkingarinnar einhendis í hlaðvarpsþætti snemma í febrúar 2024, skömmu eftir að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, steig fast til jarðar og mótmælti tjaldbúðunum sem samfylkingarfólk og fylgifiskar þess í ráðhúsinu höfðu leyft á Austurvelli.

Við þessa stefnubreytingu Kristrúnar varð mikið uppnám í sex manna þingflokki Samfylkingarinnar þar sem flokksformaðurinn nýtur stuðnings Jóhanns Páls Jóhannssonar og Loga Einarssonar (að mestu). Í þingflokknum eru Þórunn Sveinbjarnardóttir, Oddný G. Harðardóttir og Dagbjört Hákonardóttir (kom í stað Helgu Völu Helgadóttur við afsögn hennar) andvígar Kristrúnu í útlendingamálunum.

Screenshot-2024-05-16-at-10.30.23Morgunblaðið, 16, maí 2024.

Þórunn staðfestir þessa andstöðu í grein í Morgunblaðinu í dag (16. maí). Hún kvartar undan hvernig umræður um útlendingamál hafi þróast undanfarið. Hér grasseri útlendingaandúð ásamt blöndu af hræðsluáróðri um „að fólkið sem hingað kemur sé afætur á samfélaginu og af sumum þeirra stafi beinlínis hætta“.

„Þessi súra stemmning“ hafi orðið einstaklega áþreifanleg „þegar Bjarni Benediktsson forsætisráðherra skrifaði sig frá vitrænni umræðu um útlendingamál með færslu á samfélagsmiðli um tjaldbúðir Palestínumanna á Austurvelli. Þar var öllu hrært saman og klykkt út með athugasemd um skipulagða alþjóðlega glæpastarfsemi. Skotleyfið hafði verið gefið og eftir höfðinu dansa limirnir.“

Verra verður ástandið varla að mati Þórunnar. Hún hefði átt að segja söguna til enda og nefna þá sem hófu að dansa eftir pípu Bjarna „þegar hann skrifaði sig frá vitrænni umræðu um útlendingamál“. Mesta athygli vakti auðvitað þegar flokksformaður hennar, Kristrún, hóf sinn nýja útlendingadans. Henni blöskraði einnig hvernig málum var komið.

Eftir þessa árás á formann sinn breytir Þórunn um tón í greininni og lætur eins og spennan í útlendingamálum hér eigi rætur í ákvæðum EES-samningsins um frjálsa för þeirra sem koma hingað í lögmætum tilgangi til starfa. Smiðjan, nýbygging alþingis, hefði „ekki risið án vinnuframlags byggingarverkamanna og iðnaðarmanna frá öðrum löndum,“ segir hún. Varla er Þórunn að gefa til kynna að þar starfi þeir sem smyglað er hingað til lands og hafa ekki heimild til vinnu? Eða málum sé þannig háttað á hótelum, sjúkrahúsum eða hjúkrunarheimilum?

Útlendingamál eru á dagskrá alþingis í dag. Ætlar Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins, að ræða frumvarpið í dag á þeim forsendum sem hún kynnir í grein sinni? Hún er skrifuð og birt í dag til árásar á Kristrúnu Frostadóttur undir (samfylkingar)rós. Deilunum innan Samfylkingarinnar verður að halda innan vitrænna marka – eða hvað?