6.4.2023 11:37

Þörf á varnarviðbrögðum

Þögn íslenskra stjórnvalda um nauðsynlegar nýjar ráðstafanir hér vegna gjörbreytinga í öryggismálum í Evrópu og á Norður-Atlantshafi er hrópandi.

Sérfræðiþekking hér á landi á þróun her- og öryggismála er í molum og allar tillögur til að leggja grunn að rannsóknum á þessu sviði eru einfaldlega hundsaðar. Setur þetta svip á stefnumótun íslenskra stjórnvalda eins og birtist meðal annars í ný uppfærðri þjóðaröryggisstefnu.

Í Morgunblaðinu í dag leitar Kristján H. Johannessen blaðamaður út fyrir landsteinana og kynnir lesendum blaðsins viðhorf bresks fræðimanns, sérfræðings Alþjóðahermálastofnunarinnar í London (IISS), til þess sem Ísland varðar og norðurslóðir.

Screenshot-2023-04-06-at-11.34.39

Nick Childs hefur forystu innan IISS í málefnum herflota og öryggis á hafinu og ber ábyrgð á því efni sem birtist um þau efni í ársriti IISS, The Military Balance. Ritið nýtur óskoraðs trausts um heim allan. Áður en Childs tók að sér störf fyrir IISS starfaði hann í meira en þrjá áratugi hjá breska ríkisútvarpinu, BBC, og fjallaði þar um utanríkis- og varnarmál, meðal annars var hann það sem BBC kallar Pentagon-fréttaritari, hann sérhæfði sig í málum sem falla undir bandaríska varnarmálaráðuneytið.

Í því ljósi vega orð hans þungt um mistök ráðuneytisins þegar Keflavíkurstöðinni var lokað með brottför bandaríska varnarliðsins árið 2006. Að sérfróður maður um öryggismál á N-Atlantshafi skuli lýsa þessari skoðun kemur ekki á óvart. Childs hefur meðal annars fjallað ítarlega um mikilvægi GIUK-hliðsins, varnarlínu NATO í kalda stríðinu sem dregin var frá Grænlandi um Íslands til Bretlands. Birti hann gagnmerka ritgerð um GIUK-hliðið á vegum IISS í fyrra.

Um leið og Nick Childs segir það mistök að loka Keflavíkurstöðinni árið 2006 telur hann það líklega „enn stærri mistök að hafa ekki þegar endurskoðað þá ákvörðun. Búast [megi] við stórauknum umsvifum norðurflota Rússlands á komandi árum“.

Þessi skoðun fellur að því sem hér hefur verið sagt oftar en einu sinni um þá þróun öryggismála sem við blasir í nágrenni Íslands og önnur norræn ríki bregðast við á ýmsan hátt. Þögn íslenskra stjórnvalda um nauðsynlegar nýjar ráðstafanir hér vegna gjörbreytinga í öryggismálum í Evrópu og á Norður-Atlantshafi er hrópandi.

Nick Childs bendir einnig á að mikilvægi rússneska Norðurflotans eykst jafnt og þétt samhliða hrakförum rússneska landhersins í Úkraínu. Rússar muni að öllum líkindum sýna mátt Norðurflotans meira en áður til að halda lífi í þeirri ímynd að Rússland sé herveldi sem beri að varast. Í þessu skyni er líklegt að alls kyns ögranir Rússa hér á okkar slóðum aukist.

Þá er í samtalinu við Childs vikið að sívaxandi ítökum Kínverja í auðlindum Rússa á norðurslóðum, Kínverjar koma þangað með fé og tækni en Rússar gegna hlutverki gas- og olíusalans.

Þessi þróun sýnir að Kínverjar munu láta æ meira að sér kveða í norðri, líklega þar til Rússum verður nóg boðið. Oftar en einu sinni hefur soðið upp úr milli þjóðanna – þó ekki á norðurslóðum fyrr en það kynni að gerast nú með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.