18.6.2023 11:19

Þórðargleði vegna Hvammsvirkjunar

Þórðargleðin vegna Hvammsvirkjunar er skaðagleði yfir fyrirsjáanlegum orkuskorti sem ekki verður mætt með því að hætta rafmyntagreftri.

Þórðargleði, fögnuður yfir vandræðum annarra, einkenndi viðbrögð Landverndar vegna niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um að fella niður heimild til Landsvirkjunar um að ráðast í gerð Hvammsvirkjunar í Þjórsá sem hefur verið á dagskrá árum saman.

Á árunum 2008–2015 var samið við alla landeigendur um afnot af landi þeirra vegna virkjunarinnar og við íslenska ríkið um vatnsréttindi. Leyfi Minjastofnunar liggur fyrir; leyfi Fiskistofu liggur fyrir; aðalskipulag, landsskipulag og deiliskipulag liggja fyrir. Alþingi hefur samþykkt virkjunina í nýtingarflokk rammaáætlunar og mat á umhverfisáhrifum hennar liggur fyrir. Framkvæmdaleyfi sveitarfélaganna Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps voru á lokametrunum þegar ákvörðun Orkustofnunar frá 6. desember 2022 um að veita Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir 95 MW Hvammsvirkjun var felld úr gildi 15. júní 2023. Taldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að ekki hefði verið staðið rétt að málum í samskiptum við Umhverfisstofnun vegna umsóknar Landsvirkjunar til hennar til breytinga á vatnshloti Þjórsár 1 (nr. 103-663-R) í janúar 2023 í samræmi við lög um stjórn vatnamála.

Þarna er um nýmæli að ræða og virðist óljóst hvert framhaldið verður, hvort þarna sé sá þröskuldur sem lætur draum Landverndar um orkuskort í landinu rætast.

HvHvammsvirkjun eins og hún er sýnd á tölvumynd Landsvirkjunar.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi umhverfisráðherra, brást við á svipaðan hátt og Landvernd þótt skaðagleðin væri ekki eins augljós. Hún sagði: „Þessi stanslausa orðræða um orkuskort er ekkert annað en ódýr áróður,“ þegar fréttastofa ríkisútvarpsins ræddi við hana.

Þórunn telur ekki þörf á að virkja meira vegna óhjákvæmilegra orkuskipta, það eigi bara að koma flutningskerfi raforku í lag og spara með því 2-5% orkuleka úr því. „Það er sú orka sem vantar til þess að rafvæða allan bílaflotann í landinu,“ sagði Þórunn. Þá vill hún að forgangsraðað verði hvert „þessi mjög svo verðmæta endurnýjanlega auðlind eigi að fara“. Hún eigi „ekki heima til að mynda í rafmyntagreftri“.

Stöðvun á orkusölu til rafmyntagraftrar er lausnarorð þingmannsins.

Í grein sem Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og nýsköpunar, og Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun, rita á visir.is laugardaginn 17. júní segir að rafmyntagröftur sé „í eðli sínu afar áhættusamur“ og þess vegna séu „gagnaver sem hýsa slíka starfsemi ekki áhugaverð sem langtíma viðskiptavinir Landsvirkjunar“. Fyrirsjáanleg orkueftirspurn krefjist nýrra virkjana. Hvammsvirkjun muni í fyrsta lagi hefja orkuframleiðslu árið 2027. Þangað til verði mjög flókið að mæta þörfum samfélagsins fyrir forgangsorku Skerðanleg orka sem gagnaver með starfsemi í rafmyntagreftri kaupi nú nýtist ekki til þess.

Allt ber að sama brunni. Þórðargleðin vegna Hvammsvirkjunar er skaðagleði yfir fyrirsjáanlegum orkuskorti sem ekki verður mætt með því að hætta rafmyntagreftri.