3.4.2023 10:10

Þór stóðst Norðfjarðarprófið

Skipherrann segir kosti Þórs koma sífellt betur í ljós þegar hann leysi verkefni sem hann sé hannaður til að sinna, ekkert „hafi klikkað til þessa – sjö, nýju þrettán“.

Ríkisstjórnin heimilaði okkur Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra 1. desember 2006 umboð til að ljúka samningum við ASMAR skipasmíðastöðina í Chile um smíði nýs varðskips og var ritað undir samningana 20. desember 2006 en skipið átti að vera fullsmíðað á miðju ári 2009 sem tafðist um eitt ár meðal annars vegna mikils jarðskjálfta í Valpariso, heimaborg skipasmíðastöðvarinnar. Var skipið afhent landhelgisgæslunni í september 2011.

Um páskana fyrir 15 árum tók ég þátt í hátíðlegri athöfn í ASMAR-skipasmíðastöðinni sem rekin var af herflota Chile þegar kjölur var lagður að varðskipinu. Hér á síðunni er að finna margvíslegan fróðleik um sögu varðskipsins en 29. apríl 2009 var því gefið nafnið Þór af Þórunni J. Hafstein, starfandi ráðuneytisstjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.

Þetta er rifjað upp nú til að halda utan um sögu skipsins en Þór hefur undanfarna daga verið miðstöð björgunarliðsins í Neskaupstað eftir að snjóflóð féllu þar á íbúðabyggðina í liðinni viku. Segir í frétt Morgunblaðsins í dag (3. apríl) að þetta sé í fyrsta sinn sem reyni á „þennan eiginleika skipsins frá því að það kom til landsins árið 2010“. Ártalið er ekki rétt, Þór kom hingað haustið 2011.

Zwkaa3kzVarðskipið Þór (mynd:LHG).

Í frétt blaðsins er rætt við Pál Geirdal, skipherra á Þór, sem segir að skipið hafi reynst vel við aðstæðurnar í Norðfirði. Tuttugu manna öryggishópur hafi verið í Þór allan tímann og notið þar hvíldar og matar á milli krefjandi verkefna. Í hópnum voru 16 björgunarsveitarmenn og fjórir slökkviliðsmenn af höfuðborgarsvæðinu. Þegar mest var höfðu um 40 manns aðstöðu um borð að áhöfninni meðtalinni.

Skipherrann segir kosti Þórs koma sífellt betur í ljós þegar hann leysi verkefni sem hann sé hannaður til að sinna, ekkert „hafi klikkað til þessa – sjö, nýju þrettán“.

Að morgni mánudags 27. mars var Þór að draga gamla varðskipið Maríu Júlíu frá Ísafirði til Akureyrar þar sem ætlunin er að gera við skipið. Að kvöldi 27. mars var Þór kominn til Seyðisfjarðar frá Akureyri og þar fóru 30 manns um borð og var farið með fólkið til björgunarstarfa í Norðfirði.

Fyrir utan að varðskipið þjónaði sem miðstöð við almannavarnaaðgerðir hefði einnig mátt virkja það sem slysavarðstofu. Þá getur Þór gegnt hlutverki sem vararafstöð auk þess sem þar er samhæfingarbúnaður til stjórnunar á neyðartímum á borð við það sem er í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð.

Í umræðum um framtíð flugvélar landhelgisgæslunnar var látið eins og það mætti bara losa sig við hana af því að ekki reyndi á getu hennar hér. Þá komu að vísu jarðfræðingar og sögðu vélina ómetanlega við rannsóknir á eldgosum. Datt talið um að losna við vélina og ætla að treysta alfarið á annarra þjóða flugvélar fljótt niður.

Stundum hefur verið látið eins og óþarfi hafi verið að láta hanna eins fjölnota varðskip og Þór er – líklega vegna þess hve sjaldan reynir á hæfni skipsins. Það þarf hins vegar að duga þegar á það er treyst og svo reyndist vera nú vegna hamfaranna í Norðfirði. Halda einhverjir að eitthvert sambærilegt skip hafi verið á lausu í einhverju nágrannalandanna?