6.9.2020 10:26

Þöggun í myndum og máli

Auðvelt er að átta sig á þessari þöggun, hún blasir við á veggjum Kjarvalsstaða. Erfiðara er að benda á þöggun í öðrum opinberum miðli, ríkisútvarpinu.

Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur birti grein í Fréttablaðinu laugardaginn 29. ágúst í tilefni af sýningu á Kjarvalsstöðum sem heitir: Allt sem sýnist – raunveruleiki á striga.

IMG_2044Aðalsteinn notar fyrirsögnina: Ekki allt sem sýnist á grein sína og lýkur henni á þessum orðum:

„Tilefni þessa pistils er öðru fremur sýning Listasafns Reykjavíkur, „Allt sem sýnist“, en hún gefur sig út fyrir að vera sögulegt yfirlit yfir íslenska málaralist með raunsæju sniði frá síðustu fimmtíu árum. Hér er ekki ætlunin að benda á augljósa ágalla á framsetningu verkanna á sýningunni, fátæklega álitsgerð sem henni fylgir, ofhlæði í upphengi og umdeilanlegt val á verkum (teikningar Guðjóns Ketilsonar, eins ágætar og þær eru, virðast tæplega eiga heima á mál- verkasýningu), heldur fullkomlega óskiljanlega fjarveru nokkurra listamanna sem klárlega eiga heima á sýningunni út frá sömu, ef ekki augljósari, forsendum og flestir þeir sem fyrir eru. Þessir fjarstöddu listamenn gera meira en það, því þeir bregða upp fyllri og fjölbreyttari mynd af raunsæistilburðum íslenskra listamanna á því tímabili sem hér um ræðir. Yfirstandandi sýning gerir því minna úr hlutverki raunsærra listamanna í myndlistarsögu okkar en efni standa til. Ekki getur það verið tilgangurinn með henni.

Eins og í listasögunni miklu frá 2011, þá eru það listakonur, lifandi og látnar, sem fara verst út úr þessari vanrækslu. Til að mynda er erfitt að sjá hvernig hægt er að láta sér sjást yfir uppstillingar og mannamyndir Louisu Matthíasdóttur, sem eru sér á parti í landsins raunsæisflóru. Raunsæisleg umfjöllun Karólínu Lárusdóttur, Stephens Lárusar og Sigríðar Melrósar um Íslendinginn sem félagsveru er öðruvísi en flest annað á sýningunni. Mannamyndir Kristínar Eyfells eiga þar sannarlega heima á sömu forsendum og „popp- portrett“ Þorra Hringssonar. Loks má nefna einkalega sýn listamanna á borð við Katrínu Matthíasdóttur, Stefán Boulter og Arons Reyrs á nærumhverfi sitt.

Með von um að þeir sem málið varðar endurskoði vinnulag sitt í náinni framtíð.“

Þarna birtist þung ádeila. Beitt er skipulegri þöggun eða útilokun – í þessu tilviki af hálfu opinbers safns. Karólína Lárusdóttir höfðaði sterkt til almennings megi marka áhuga á sýningum hennar á Kjarvalsstöðum, nú eru verk hennar ekki gjaldgeng á yfirlitssýningu í sama húsi.

Auðvelt er að átta sig á þessari þöggun, hún blasir við á veggjum Kjarvalsstaða. Erfiðara er að benda á þöggun í öðrum opinberum miðli, ríkisútvarpinu. Þar er framlagi einstaklinga ekki stillt upp á sama hátt og á listsýningu.

Valið á viðmælendum í einstaka hljóðvarps- eða sjónvarpsþætti segir þó sína sögu eins og sjá má á listum um gesti í Silfrinu sem birst hafa í tímaritinu Þjóðmálum.

Viðmælendahringurinn er ekki stór hjá ríkisútvarpinu. Í dag (6. september) kom til sögunnar nýr viðtalsþáttur Þrastar Helgasonar, stjórnanda rásar 1. Eiríkur Bergmann Einarsson prófessor er fyrsti viðmælandinn. Varla finnst hlustendum mikið nýjabrum af skoðunum hans?