Þjóðverjar til reynslu á Mallorka
Yfirvöld
á Spáni hafa til dæmis ákveðið að leyfa til reynslu allt að 10.900 þýskum ríkisborgurum
að heimsækja Mallorka og nágrannaeyjar.
Leiðir sem ríki velja við að opna ferðamannastaði sína fyrir útlendingum eftir COVID-19-lokunina eru mismunandi. Yfirvöld á Spáni hafa til dæmis ákveðið að leyfa til reynslu allt að 10.900 þýskum ríkisborgurum að heimsækja Mallorka og þrjár nágrannaeyjar í litlum hópum áður en ákvörðun er tekin um að opna eyjarnar eða Spán almennt. Strangt heilbrigðis- og öryggiseftirlit verður við komu til eyjanna og verður hver farþegi að greina frá líkamshita sínum og svara spurningum um líðan sína.
Héraðsstjórnin tók ákvörðun um þetta í samvinnu við þá sem reka og starfa við ferðaþjónustufyrirtæki í því skyni að tryggja samkeppnisforskot eyjanna og tryggja atvinnu. Hefst tilraunin 15. júní.
Spænskum landamærum var lokað 12. mars en ætlunin er að þau verði opnuð að nýju 1. júlí. Engin skýring er gefin á því hvers vegna Þjóðverjar fá þennan forgang á Mallorka, Formentera, Menorca og Ibiza. Þeir eru þriðji stærsti ferðamannahópurinn á Spáni en tæplega 500.000 Þjóðverjar heimsóttu Spán í fyrra. Bretar og Frakkar voru fjölmennari á Spáni árið 2019 en báðar þjóðirnar urðu meira fyrir barðinu á COVID-19 en Þjóðverjar.
Þegar rætt er mismunandi aðferðir ríkja við að opna landamæri sín er gjarnan talað um „ferðakúlur“, það er að ríki taki sig saman og myndi gagnkvæmt ferðafrelsi sín á milli en útiloki fólk frá öðrum ríkjum.
Evrópulönd minna á frumskóg þegar litið er til aðferða stjórnvalda þeirra við að opna landamæri sín. Þá eru mismunandi kröfur gerðar til þeirra sem nýta sér ferðafrelsið, hér verður skimun við komuna frá 15. júní, til Bretlands mega menn koma frá 8. júní en verða að fara í tveggja vikna sóttkví. Ferðamenn sem koma til Danmerkur mega ekki dveljast í Kaupmannahöfn og þannig má áfram telja.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að ekki dugi að treysta á vottorð ferðamanna um að þeir séu ósýktir komi þeir hingað. Innlendir aðilar verði að skima.
Einkennilegt er að þeir sem starfa hér við ferðaþjónustu geri athugasemd við að þeir sem hingað koma skuli sjálfir greiða 100 evrur fyrir skimun. Þeir sem taka á móti ferðamönnum ættu í hverju tilviki fyrir sig að geta skoðað hvort ekki sé unnt að hnika verðlagningu þannig að þessar 100 evrur haldi ferðamanninum ekki í burtu.
Íslensk stjórnvöld geta að sjálfsögðu gert eins og þeir á Spáni. Myndað „kúlu“ með nokkrum ríkjum og stækkað hana stig af stigi án alls umstangsins í kringum skimun allra.