22.1.2023 11:52

Þjóðverjar einangrast

Hik og vandræðagangur þýsku ríkisstjórnarinnar undir forystu jafnaðarmannsins Olafs Scholz hefur leitt til einangrunar Þjóðverja.

Hik og vandræðagangur þýsku ríkisstjórnarinnar undir forystu jafnaðarmannsins Olafs Scholz hefur leitt til einangrunar Þjóðverja við mótun og framkvæmd evrópskrar öryggismálastefnu á stríðstíma í Evrópu.

D8680f085b21a7802bd764a44bcc896fFrelsið leópardana segir á þessu skilti mótmælenda í Berelín sem vilja auka stuðning við Úkraínumenn.

Skýringarnar eru djúpstæðar. Hér skulu þrjár nefndar:

  • Ótti þýskra ráðamanna við að sýna vígbúnað sinn vegna arfleifðar stríðsáranna þegar þýski herinn vakti ótta og fyrirlitningu vegna framgöngu sinnar.
  • Hræðsla við að Rússar láti verða að hótunum, sem hafa sérstakan hljómgrunn í Berlín, um að stigmagna hernað fái Úkraínumenn öflugri vopn – Angst vor der Eskalation.
  • Sannfæring Þjóðverja um að Ostpolitik þeirra hafi leitt til falls Sovétríkjanna en ekki fælingarstefna Bandaríkjanna og NATO.

Óttist þýskir stjórnmálamenn einangrun vegna stefnu í öryggismálum ættu þeir að taka sér tak núna. Þeir hafa selt um 2.000 Leopard 2 skriðdreka til 12 Evrópuríkja með söluskilmálum. Þvermóðska Þjóðverja vegur að pólitísku forystuhlutverki þeirra innan ESB.

Áróðursmenn Kremlverja spila markvisst á stigmögnunarótta Þjóðverja, þar er hljómgrunnur fyrir áróðurinn. Nýjustu kannanir sýna að 46% Þjóðverja séu á móti því að Úkraínumenn fái Leopard 2 skriðdrekana en 43% styðji það. Þetta minnir á hvernig áróðursmenn Sovétstjórnarinnar spiluðu á vestur-þýskan almenning. Þá var tekist á um hvort bandarískar stýriflaugar búnar kjarnaoddum ættu að vera í Þýskalandi. Helmut Schmidt, kanslara jafnaðarmanna (SPD), tókst ekki að halda stjórn sinni saman og hann sagði af sér. SPD lenti þá utan stjórnar í 16 ár. Einnig nú er klofningur innan þýsku ríkisstjórnarinnar, Græningjar með Annalenu Baerbock utanríkisráðherra vilja senda Leopard 2 til Úkraínu.

Ostpolitik er tengd SPD-leiðtoganum Willy Brandt, forvera Helmuts Schmidts, sem taldi að nálgast ætti Sovétmenn og leppríki þeirra í anda slökunar og vinsemdar. Sama viðhorf einkenndi síðan viðbrögð Angelu Merkel kanslara kristilegu flokkanna (CDU/CSU) þegar Vladimir Pútin innlimaði Krímskaga 2014. Fylgt var kenningunni um Wandel durch Handel, breytingu í krafti viðskipta. Hún leiddi til þess að Þjóðverjar urðu of háðir rússnesku gasi. Á ellefu mánuðum frá því að Pútin hóf innrásina í Úkraínu hefur tekist að losa Þjóðverja úr rússnesku orkufjötrunum – þar sýndu markaðsöflin hvers þau eru megnug.

Sérstaða þýskra ráðamanna birtist enn þegar Olaf Scholz segist ekki senda Leopard 2 til Úkraínu nema Bandaríkjamenn sendi fyrst Abrams 1 skriðdreka sína. Þeir eru knúnir þotueldsneyti og koma þess vegna ekki til greina.

Að forystuþjóð Evrópu margfalt ríkari en Rússar treysti sér ekki til að verða við óskum um nauðsynlegt framlag til varnar frjálsum þjóðum álfunnar vegna þess sem að ofan er lýst er áhyggjuefni fyrir Evrópubúa og áréttar aðeins gildi Atlantshafssamstarfsins við Bandaríkjamenn á vettvangi NATO.