22.4.2020 11:15

Þjóðarskútunni beint til nýsköpunar

„Með þessum aðgerðum verður þessi ríkisstjórn án nokkurs vafa nýsköpunarmiðaðasta ríkisstjórn Íslandssögunnar.“

Miðlar Torgs eru neikvæðir í garð efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19. Forsíða flaggskipsins Fréttablaðsins er í dag (22. apríl) enn og aftur lögð undir neikvæða afstöðu stjórnarandstöðunnar. Sé gamalkunn neikvæðni hennar merkasti fréttapunkturinn vegna aðgerðanna gerðist ekkert fréttnæmt á blaðamannafundi formanna stjórnarflokkanna í Safnahúsinu þriðjudaginn 21. apríl. Þar kynntu þeir aðgerðir sem metnar eru á 60 milljarða króna.

Tryggvi Hjaltason í Vestmannaeyjum, starfsmaður CCP og forystumaður í nýsköpun, sagði á FB-síðu sinni þegar ríkisstjórnin hafði kynnt ráðstafanir sínar:

„Rétt í þessu var ríkisstjórnin að tilkynna að hún ætlar ekki bara að vera í vörn heldur að fara að byggja undir viðspyrnuna og hefja sókn í hagkerfinu. [...] Ef þessi áform ganga eftir þá er ríkisstjórnin að fara að stórefla samkeppnishæfni Íslands og stórefla getu allra Íslendinga til að stunda nýsköpun.“

Tryggvi segir að með ráðstöfununum sé hvati til að ráðast í stór nýsköpunarverkefni í hagkerfinu „stórefldur“. Samkeppnishæfni aukist „stórkostlega“. Lagður sé grunnur að kröftugri sókn með nýjum tekjum inn í hagkerfið. Hann lýkur hugleiðingu sinni á þessum orðum:

„Með þessum aðgerðum verður þessi ríkisstjórn án nokkurs vafa nýsköpunarmiðaðasta ríkisstjórn Íslandssögunnar.“

Hvað felst í þessum orðum? Þau lýsa í raun enn jákvæðri breytingu á stefnu þjóðarskútunnar til þeirrar áttar sem markar leið til framtíðar í hagkerfum sem reist eru á stafrænum lausnum, gervigreind og ofurtölvum.

Safn.phpMynd mbl.is frá blaðamannafundi formanna stjórnarflokkanna 21. apríl 2020.

Ljósleiðaravæðing Íslands sem framkvæmd var með stuðningi ríkissjóðs, sveitarfélaga og þátttöku einstaklinga hefur jafnað aðstöðumun innan lands í þessu nýja hagkerfi. Aðferðin við þær miklu framkvæmdir um land allt á að verða leiðarljós við skrefin þegar COVID-19 er að baki. Í því efni er óþarft að finna upp hjólið.

Hvort sem COVID-19 á uppruna í rannsóknastöð á leðurblökum í Wuhan í Kína eða á matvælamarkaði með lifandi dýr í borginni er víst að hún barst úr dýri í menn og kröfur til hreinleika matvæla verða meiri eftir COVID-19 en áður.

Í því ljósi er vert að halda á loft ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að koma á fót Matvælasjóði með 500 m.kr. framlagi. Sjóðurinn á að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaði og sjávarútvegi. Styrkt verður verðmætasköpun við framleiðslu, vinnslu og markaðssetningu matvæla með sérstakri áherslu á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og almennar aðgerðir til að auka samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu.

Vissulega er brýnt að veita þeim fjárhagslegan stuðning sem glíma nú við fjárhagslegan vanda, hitt er ekki síður mikilvægt að styðja við greinar sem skapa ný verðmæti til frambúðar og auðvelda þjóðinni þannig að ná vopnum sínum að nýju.

Bölmóður stjórnarandstöðunnar og tilraunir einstakra þingmanna hennar til yfirboðs miða ekki að lausn vanda heldur að því að nýta alvarlegt ástand sjálfum sér til framdráttar.