Þjóðarsátt – uppgjör við Trump
Samhliða því sem eðlilegt ástand skapast í samskiptum bandarískra stjórnvalda út á við reynir á hvernig tekið verður á málum innan Bandaríkjanna sjálfra.
Víða um lönd er látinn í ljós léttir yfir að Joe Biden hafi tekið við stjórnartaumum í Hvíta húsinu af Donald Trump. Fyrirsagnir birtast um að nú sé vonandi snúið aftur til normalcy – eðlilegs ástands – við stjórn Bandaríkjanna og í samskiptum stjórnvalda þar við aðrar ríkisstjórnir eða við alþjóðastofnanir.
Meðal stjórnarfyrirmæla sem Biden staðfesti með undirskrift sinni á fyrsta degi í embætti var endurnýjuð aðild Bandaríkjanna að Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál og að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Vald forseta Bandaríkjanna nær til ákvarðana um þetta án samþykkis þingsins
Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, kenndi það við „gæfudag fyrir lýðræðið“ að Biden hefði tekið við forsetaembættinu. Andspænis tilraunum til að rífa niður stofnanakerfi Bandaríkjanna hefðu starfsmenn við framkvæmd kosninga og ríkisstjórar, réttarvörslukerfið og þingið sýnt styrk sinn. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, lét orð einnig falla um viðnámsþrótt bandaríska lýðræðiskerfisins. Í orðum þeirra felst ekki aðeins gagnrýni á öfgahópa heldur einnig Donald Trump sem sætti og sætir áfram ánæli fyrir viðbrögð hans við úrslitum forsetakosninganna.
Frá embættistöku Joes Bidens, 20. janúar 2021,
Eðlilegt er að bandalagsþjóðir Bandaríkjanna fagni þegar Bandaríkjastjórn ákveður að snúa aftur til virkrar þátttöku í alþjóðasamstarfi innan stofnana sem urðu til að frumkvæði Bandaríkjamanna sjálfra og hafa gegnt mikilvægu hlutverki við skipan heimsmála í meira en 75 ár. Er óskiljanlegt að á æðstu stöðum í Washington hafi menn talið þjóna bandarískum hagsmunum að skapa uppnám í þessu kerfi.
Samhliða því sem eðlilegt ástand skapast í samskiptum bandarískra stjórnvalda út á við reynir á hvernig tekið verður á málum innan Bandaríkjanna sjálfra. Málflutningur Joes Bidens á fyrsta forsetadegi hans snerist um nauðsyn þess að sameina þjóðina. Hitt er síðan annað mál hvernig æstum forystumönnum demókrata tekst að hafa stjórn á óvild sinni og hatri í garð Trumps.
Ótrúlegt er að lesa ummæli Hillary Clinton sem tapaði fyrir Trump í forsetakosningunum árið 2016 segja í hlaðvarpssamtali við Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildarinnar, mánudaginn 18. janúar:
„Mikið vildi ég sjá skrá yfir símtöl [Trumps] til að kanna hvort hann ræddi við Pútin daginn sem uppreisnarmennirnir réðust inn í þinghúsið okkar.“
Að Hillary Clinton hafi orð á þessu sýnir aðeins að demókratar trúa því statt og stöðugt að leynisamband sé milli Trumps og Pútins hvað sem öllum rannsóknum líður og niðurstöðum þeirra. Pelosi segist hafa sagt við Trump „herra forseti hjá þér liggja allir vegir til Pútins“. Þingforsetinn segir í samtalinu að þeir sem réðust á þinghúsið hafi „gengið erinda Pútins eftir að forseti Bandaríkjanna hvatti þá til uppreisnar“. Pútin hafi ef til vill eitthvað á Trump „pólitískt, fjárhagslega eða persónulega“ eins og Pelosi orðaði það.
Uppgjöri demókrata við Donald Trump er ekki lokið. The Wall Street Journal segir að hatrið á Trump sameini demókrata, nú verði þeir að takast á við fráhvarfseinkenni við brottför hans. Það geti orðið þungbært.