17.1.2023 10:40

Þjóðarhöll tímasett án fjármagns

Reykjavíkurborg tók á sínum tíma ákvörðun og reisti Laugadalslaugina, Laugardalsvöllinn og Laugardalshöllina. Ríkissjóður átti ekki hlut að máli þá. Nú er öldin önnur.

Eftir 34 - 26 sigur íslenska landsliðsins í handbolta á Austurríki að Ásvöllum í Hafnarfirði laugardaginn 16. apríl 2022 kallaði Guðmundur Guðmundsson  landsliðsþjálfari það þjóðarskömm að hér skyldi ekki vera þjóðarhöll sem gæti hýst leik eins og þennan landsleik.

Að sjálfsögðu rís hér þjóðarhöll til að unnt sé að fullnægja kröfum sem gerðar eru til íþróttaviðburða innan húss. Það er gott tilefni til að kynna útfærða hugmynd um slíka höll núna þegar þjóðin fylgist af áhuga og miklum stuðningi með landsliði karla á heimsmeistaramótinu í handbolta. Slík kynning var einmitt í gær (16. janúar) með þátttöku Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar íþróttaráðherra og Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Daginn sem Ísland vann 38:25 sigur á Suður-Kóreu.

Næsta skref er að reisa 19 þúsund fermetra hús sem tekur 8.600 manns í sæti á kappleikjum og 12.000 á tónleikum. Ætlunin er að það verði milli Laugardalshallar og Suðurlandsbrautar og kosti 15 milljarða króna þegar það verður risið árið 2025 – eftir tvö ár.

M2022-05-06-15-49-59-340Ritað undir kosningaloforð um þjóðarhöll 6. maí 2022 (mynd Reykjavíkurborg).

Viku fyrir borgarstjórnarkosningar 2022 rituðu þau þrjú sem voru á blaðamannafundinum í gær undir viljayfirlýsingu um að ríkið og Reykjavíkurborg mundu tryggja fjármögnun hússins. Ekkert var sagt um hlutföllin. Um þetta er ósamið.

Reykjavíkurborg tók á sínum tíma ákvörðun og reisti Laugadalslaugina, Laugardalsvöllinn og Laugardalshöllina. Ríkissjóður átti ekki hlut að máli þá. Nú treystir borgin sér ekki til slíkrar forystu en býður land án þess að fyrir liggi deiliskipulag eða aðrar hugmyndir í samgöngum til og frá þjóðarhöllinni en borgarlínan sem verður örugglega ekki farin að flytja fólk árið 2025.

Katrín Jakobsdóttir nefndi byggingu Hörpu á blaðamannafundi í gær, þar kom drifkrafturinn frá einkaaðilum. Án hans hefði húsið ekki risið. Nú sagði forsætisráðherra að hún teldi að eignarhald ætti að vera hjá ríki og borg „mögulega í samstarfi við einhvern einkaaðila“. Þá yrði að ákveða hvort borgin bæri meiri eða minni ábyrgð á rekstrinum. Allt þetta ætti eftir að ræða.

Úr því að forsætisráðherra minnist á Hörpu og rekstur þess húss skal minnt á stórtekjur Reykjavíkurborgar af því vegna ofurhárra fasteignaskatta, þeir eru klafi á starfsemi í húsinu. – Eftir að álagning þeirra var dæmd ólögmæt var reglunum einfaldlega breytt svo að borgin missti ekki spón úr aski sínum.

Samningamenn ríkisins ættu að hafa þessa hlið á kostnaði við rekstur stórmannvirkja í huga þegar gengið verður til samninga við Reykjavíkurborg um kostnaðarskiptingu vegna þjóðarhallarinnar. Borgarsjóður er nú botnlaus hít og stjórnendur í ráðhúsinu beita öllum brögðum til að hafa sem mest fé af þeim sem stunda rekstur, reisa eða eiga mannvirki innan borgarmarkanna.

Þá ættu samningamenn ríkisins einnig að gæta sín á þeirri áráttu borgaryfirvalda undir forystu Dags B. Eggertssonar að líta á öllu fjármálaleg samskipti sem „viðkvæmt viðskiptamál“ sem óhjákvæmilegt sé að sveipa leyndarhjúpi, hvort heldur um er að ræða ráðstöfun á lóðum bensínstöðva eða kaup á stofnbúnaði til fjarskipta.