Þjóðaratkvæðagreiðsla með hraði
Örugglega dettur engum í Brussel í hug að íslensk stjórnvöld láti við það sitja að dusta rykið af 16 ára gamalli umsókn og leggja hana fyrir ESB að nýju.
Nýr talsmaður Samfylkingarinnar í utanríkismálum, Dagur B. Eggertsson, telur ástandið í heimsmálum kalla tafarlaust á þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðildarviðræður.
Í sáttmála ríkisstjórnarinnar segir: „Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu fer fram eigi síðar en árið 2027.“
Ástæða er til að staldra við orðalagið „framhald viðræðna“. Ýmsir voru þeirrar skoðunar 2015 að álykta yrði á alþingi um afturköllun umsóknarinnar um ESB-aðildina frá 2009.
Þáverandi utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson (Framsóknarflokknum) færði skýr rök fyrir því fyrir réttum 10 árum að bréf sitt til Brusselmanna dygði til að binda enda á sambandið sem hófst milli Íslands og ESB með aðildarumsókninni árið 2009.
Síðan hefur þó verið deilt á pólitískum vettvangi um hvort nægilega tryggilega hafi verið lokað á öll aðildarsamskipti við ESB með þessu bréfi.
Flokkur fólksins hefur til dæmis flutt tillögu á sex þingum til ályktunar um „að fela ríkisstjórninni að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu“.
Í greinargerð með tillögunni segir að talsmaður stækkunardeildar ESB líti ekki svo á að Ísland hafi dregið aðildarumsóknina til baka og bréf utanríkisráðherra frá 12. mars 2015 sé ekki ígildi uppsagnar.
Telur Flokkur fólksins óljóst „hvort Evrópusambandið líti svo á að umsóknin hafi verið dregin til baka eða hvort sambandið hafi einungis fært Ísland af lista yfir umsóknarríki til málamynda en telji umsóknina enn fullgilda“.
Örugglega dettur engum í Brussel í hug að íslensk stjórnvöld láti við það sitja að dusta rykið af 16 ára gamalli umsókn og leggja hana fyrir ESB að nýju.
Fullyrða má að jafnvel Össuri Skarphéðinssyni kæmi ekki einu sinni til hugar að bræða ísinn af umsóknarhræinu sem hann lagði til hvílu í janúar 2013.
Íslensk stjórnvöld láta að sjálfsögðu ekki ESB skilgreina stöðu Íslands gagnvart sambandinu. Þau verða að gera það sjálf. Ríkisstjórnin skuldar þjóðinni skýringu á því hvað felst í orðunum „framhald viðræðna“ í sáttmála hennar.
Óhjákvæmilegt er að leggja fullbúna, rökstudda umsókn um ESB-aðild fyrir þjóðina og kynna hana öllum almenningi fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.
Það er frumskilyrði að til þjóðaratkvæðagreiðslu sé gengið um málefni sem kynnt er og lagt fyrir á skýran og ótvíræðan hátt.
Þess vegna kemur ekki til álita að greidd séu atkvæði um framhald viðræðna sem siglt var í strand árið 2011 og voru síðan settar á ís í janúar 2013.
Spurningin í þjóðaratkvæðagreiðslu á að vera skýr, hnitmiðuð og hlutlaus en hvorki óljós né leiðandi. Kjósendum skal vera ljóst til hvers atkvæðagreiðslan leiðir svo að þeir geti tekið upplýsta ákvörðun.
Ríkisstjórnin getur ekki skautað fram hjá svo augljósum staðreyndum jafnvel þótt Dagur B. Eggertsson hvetji til hraðferðar. Er krafa hans sett fram af því að hann veit ekki betur eða er hann vísvitandi að koma forsætisráðherra í vanda?