3.1.2022 10:22

Þjóð í orkuhafti

Óhugsandi er að Íslendingar leggi sitt af mörkum í krafti vísinda á loftslagssviði án þess að virkja meiri endurnýjanlega orku í vatnsföllum, jarðhita eða vindi.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, boðaði í nýársávarpi sínu að á árinu 2025 yrði innanlandsflug til eins áfangastaðar „grænt“ í Danmörku og allt innanlandsflug yrði „grænt“ árið 2030. Þetta er liður í „grænum umskiptum“ á dönsku en orkuskiptum á íslensku.

Margir danskir sérfræðingar fögnuðu ummælum forsætisráðherrans. Henrik Wenzel, prófessor við Syddansk Universitet, sagði að forsætisráðherrann hefði rétt fyrir sér en hún hefði mátt segja þetta fyrr. Hann sagðist sannfærður um að þróunin yrði á þann veg að það gerðist sem hún segði. Ekki síst vegna þess að innan greinarinnar sæktust menn mjög eftir að ná þessu marki.

7bb1fd2e-86ef-44fd-aacc-2b8dd185c09aOkkar forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, var jarðbundnari í orðum sínum í kafla áramótaávarps síns um hlýnun jarðar og hættuna af henni. Okkur bæri að draga úr hækkun koldíoxíðs í lofti sem hækkaði hitastig í heiminum. „Ísland á að skipa sér í forystusveit þeirra þjóða sem nýta vísindin og hugvitið til að takast á við loftslagsvána og eru reiðubúnar að gera þær breytingar sem þarf til að draga úr losun og verða óháð jarðefnaeldsneyti,“ sagði forsætisráðherra.

Óhugsandi er að Íslendingar leggi sitt af mörkum í krafti vísinda á þessu sviði án þess að virkja meiri endurnýjanlega orku í vatnsföllum, jarðhita eða vindi. Vissulega er unnt að binda meira kolefni í jarðvegi og gróðri sé gætt að alþjóðlegri vottun til að árangur sé rétt metinn. Orkuskipti verða hins vegar ekki án þess að endurnýjanlegir orkugjafar komi í stað orkunnar sem ekki er talin „græn“.

Danir hafa skipað sér í fremstu röð við framleiðslu vindorkuvera og gera nú tilraunir með turna sem eru yfir 200 metrar á hæð og ætlað er að standi með spaða sína á hafi úti. Þeir eru stoltir af þessu „græna“ framlagi sínu og njóta goðs af því um heim allan.

Um áramótin sendi framkvæmdastjórn ESB frá sér til umsagnar meðal aðildarþjóða tillögur um að litið verði á fjárfestingar í kjarnorkuverum og jarðgasi sem „grænar“. Í tillögunum er kjarnorka viðurkennd sem sjálfbær orkugjafi í löndum þar sem tryggilega er búið um geislavirkan úrgang.

Framkvæmdastjórnin birti yfirlýsingu laugardaginn 1. janúar 2022 og sagði að hún teldi jarðgas og kjarnorku auðvelda umskiptin yfir til þess tíma þegar endurnýjanlegir orkugjafar yrðu ráðandi.

Ekki er tilviljun að tillagan er kynnt sama dag og Frakkar hefja sex mánaða pólitíska forystu innan ESB. Engin þjóð er háðari kjarnorku til raforkuframleiðslu en þeir. Þjóðverjar stefna hins vegar að því að loka síðustu kjarnorkuverum sinum í ár, 2022. Þess má því vænta að hart verði tekist á um tillögu framkvæmdastjórnarinnar en með því að setja kjarnorku og jarðgas undir sama hatt er kynnt gulrót fyrir Þjóðverja sem eiga mikið undir jarðgasi.

„Græn“ skilgreining á orkugjöfum auðveldar mjög öflun fjármagns til að virkja þá. Fyrir ESB vakir að minnka hættu á orkuskorti og hvetja til stórfjárfestinga í kjarnorkuverum. Hér sitja orkufyrirtæki af sér einstök tækifæri til hagstæðrar „grænnar“ fjármögnunar vegna þröskulda í stjórnkerfinu og þvermóðsku landverndarfólks. Hættan á orkuskorti er töluð niður hér þótt skorturinn skapi nú þegar vandræði og leiði til mengunar, t.d. við loðnuvinnslu. Hagstjórn undir slíkum hömlum styrkir hvorki þjóðarbúskapinn né stuðlar að því að Ísland skipi sér í þá forystusveit sem forsætisráðherra nefndi í áramótaávarpi sínu.