Þjarkað um þjóðarhöll
Reynslan af öllu sem að sameiginlegum framkvæmdum Reykjavíkurborgar og ríkisins snýr sýnir að þar gengur hvorki né rekur.
Þjóðarhöllinni fyrir innanhúsíþróttir var lofað fyrir borgarstjórnarkosningar 2022 með hátíðlegri undirskrift forsætisráðherra, íþróttamálaráðherra og þáverandi borgarstjóra. Í september 2023 var boðað að hún yrði tilbúin í lok árs 2026 eða í byrjun árs 2027. Núna, 8. mars, var greint frá því að áætluð verklok þjóðarhallar væru seint á árinu 2027 eða á fyrri hluta ársins 2028.
Þegar ákvarðanir voru teknar um að í Reykjavík risi tónlistar- og ráðstefnuhöll, sem síðar varð Harpa, sögðu erlendir ráðgjafar með langa reynslu af slíkri mannvirkjagerð að skynsamlegt væri að reikna með um 13 ára ferli þar til húsið yrði tekið í notkun. Má segja að sú spá hafi reynst raunsæ en ekki var hætt við að ljúka smíði hússins þrátt fyrir bankahrunið.
Þetta er rifjað upp hér vegna umræðna um fjármögnun þjóðarhallarinnar í ljósi skuldbindinga ríkissjóðs vegna kjarasamninganna. Höllin er komin inn í fjármálaáætlun ríkisins en margt á eftir að gerast áður en til gjalddaga kemur. Reynslan af öllu sem að sameiginlegum framkvæmdum Reykjavíkurborgar og ríkisins snýr sýnir að þar gengur hvorki né rekur.
Ríkið ýtti sveitarfélögum út úr þátttöku við byggingu hjúkrunarheimila meðal annars vegna reynslunnar af samstarfi við borgina. Samgöngusáttmálinn um vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu er í uppnámi. Eftir um 30 ára umhugsun veit enginn hvar Sundabraut á að liggja og mislæg gatnamót eða Miklabraut í stokki eru enn fjarlægur draumur. Pjattbrú fyrir borgarlínu yfir Fossvoginn frá Kársnesi í Nauthólsvík er svo dýr að meira að segja þeim sem stóðu að dýra Nauthólsvíkurbragganum ofbýður. Og svo halda menn að þjóðarhöll rísi einn, tveir og þrír í Laugardalnum sem er að verða eitt stórt bílastæði.
Þjóðarhöll á að rísa á milli Laugardalshallar og Suðurlandsbrautar. Lugardalurinn breytist í bílastæði (mynd af vefsíðu stjórnarráðsins).
Það er álíka tilgangslaust að æsa sig yfir því að þjóðarhöll þvælist fyrir framkvæmd kjarasamninga á næstu fjórum árum eins og hvort einhverjum detti í hug að flugvöllur verði lagður í Hvassahrauni í stað Reykjavíkurflugvallar.
Miklu nær er að líta á stöðu þjóðarbúsins þegar rætt er um kjarasamninga. Fjármálastöðugleikanefnd er óhlutdrægur matsaðili um það efni. Hún segir í yfirlýsingu 13. mars 2024 að fjármálakerfið hér á landi standi traustum fótum. Eiginfjár- og lausafjárstaða kerfislega mikilvægra banka sé sterk og aðgengi þeirra að fjármögnun gott. Verðbólga hafi minnkað. Skuldahlutföll hafi almennt lækkað og séu nú lægri en þau hafi verið um árabil. Eiginfjárstaða heimila hafi batnað samhliða hækkun húsnæðisverðs og lækkun skulda að raunvirði. Greiðslubyrði lánþega hafi þyngst en vanskil séu þó enn lítil. Eiginfjárstaða fyrirtækja í flestum atvinnugreinum sé sterk.
Þannig er staðan að þessu leyti þegar kjarasamningar til fjögurra ára hafa tekist. Þeir verða viðmið fyrir aðra. Eigi að lofta út í ríkiskerfinu af þessu tilefni verður að líta á regluverkið sjálft, forsjárhyggjuna sem felst í því en ekki stofnanirnar sem settar eru á fót til að fylgja regluverkinu eftir. Stofnanir eru afleiðing en ekki orsök. Löggjafinn og reglusmiðirnir verða að láta frjálsræði og traust á einstaklingum njóta vafans en ekki ala á opinberri forsjá á sífellt fleiri sviðum.