Þinguppnám vegna bankasölu
Stjórnarandstæðingar leggja alla áherslu á formið og beina öllum kröftum að því hver eigi að rannsaka það sem gert hefur verið í umboði þingsins eftir fjölmarga fundi í þingnefndum og umræðum.
Á alþingi velur stjórnarandstaðan þá gamalkunnu aðferð í umræðum sum sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka að stofna til ágreinings um form til að forðast umræður um efnið. Samkvæmt fréttum urðu stormasamar umræður á alþingi í dag (föstudag 8. apríl) um þá ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra frá 7. apríl að fela ríkisendurskoðanda að stjórna rannsókn á framkvæmd sölu hlutabréfanna Íslandsbanka.
Ríkisendurskoðandi starfar í umboði alþingis samt segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis, í þingræðu að „armar ríkisendurskoðunar“ nái ekki nógu langt.
Telji þingmenn ríkisendurskoðanda skorta umboð til að rannsaka það sem þeir vilja vegna bankasölunnar er einfaldast fyrir þá að breyta umboði þessa starfsmanns síns svo að hann geti leitast við að gera það sem þeir vilja.
Mynd: mbl.is
Allt varðandi ferlið við sölu Íslandsbanka var ítarlega rætt á þingi og höfðu þingmenn tækifæri til að gera tillögur til breytinga, Við meðferð málsins var ríkur vilji til að sem mest sátt yrði um það. Nú hefur að minnsta kosti einn þingmaður, Bryndís Haraldsdóttir, Sjálfstæðisflokki, stigið fram og sagt að hún hafi ekki sýnt nægilega árvekni við þingmeðferðina. Kannski á það við fleiri en slík eftirsjá breytir ekki reglum eftir að þeim er hrundið í framkvæmd.
Þá gerðist það á þingi í dag að Helga Vala Helgadóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, heimtaði að gert yrði hlé á þingfundi til sérstaks neyðarfundar um skipun rannsóknarnefndar vegna þess að Sigríður Benediktsdóttir, hagfræðingur, nefndarmaður í rannsóknarnefnd alþingis um bankahrunið sagði við vefsíðuna Kjarnann að sala á hlutum í Íslandsbanka til lítilla fjárfesta í lokuðu útboði bryti í bága við lög um sölumeðferð eignarhluta ríkis í fjármálafyrirtækjum.
Hvað sem líður þekkingu Sigríðar á fjármálakerfum hefur hún ekki úrskurðarvald um lögbrot, það er í höndum dómara. Vakni spurning um lögmæti sölu hluta í Íslandsbanka á að leita svara við henni fyrir dómstólum og ekki annars staðar. Þetta ætti fyrrverandi rannsóknarmaður alþingis að vita og einnig hve óvarlegt er að ræða um fjárhagslega hagsmuni með getsökum.
Niðurstaða neyðarfundar forseta alþingis um hvort þingmenn treysta ríkisendurskoðanda sem starfar í umboði þeirra til að rannsaka bankasöluna var á þann veg að kröfunni um rannsóknarnefnd var hafnað. Deilan varpar ljósi á eitt: stjórnarandstaðan hefur ekki burði til annars en rífast um formið. Efnislega er henni um megn að ná sameiginlegri niðurstöðu.
Stjórnarandstæðingar leggja alla áherslu á formið og beina öllum kröftum að því hver eigi að rannsaka það sem gert hefur verið í umboði þingsins eftir fjölmarga fundi í þingnefndum og umræðum.
Sum mál eru greinilega svo stór að það er þingmönnum um megn að setja þau í þann búning að þeir séu sáttir við framkvæmdina. Bankasýslunni á að hafa verið tryggt sjálfstæði. Sé það svo að hún hafi staðið að sölu hluta í Íslandsbanka með lögbroti verður að leita til dómstóla.