15.6.2018 10:33

Þingmenn Pírata falla á eigin prófi

Hvernig sem á það er litið er mjög óvenjulegt að þingmenn gangi á þennan hátt fram gegn embættismanni í sölum alþingis og hefði mátt ætla að það væri gert í krafti óyggjandi gagna og upplýsinga.

Tveir áhrifaaðilar í opinberum umræðum tóku sér fyrir hendur að gera hlut Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu (í leyfi), sem verstan til að hindra að hann nái kjöri sem fulltrúi Íslands í barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Þessir aðilar eru annars vegar vefsíðan Stundin og hins vegar þingflokkur Pírata.

Píratinn Halldóra Mogensen er formaður velferðarnefndar alþingis. Hún vakti meðal annars máls á því á þingfundi 26. febrúar 2018 að fyrrverandi félags- og jafnréttismálaráðherra Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, setti á fót rannsókn innan velferðarráðuneytisins í kjölfar kvartana sem bárust frá tveimur barnaverndarnefndum á höfuðborgarsvæðinu yfir störfum Braga Guðbrandssonar. Spurði Halldóra núverandi ráðherra Ásmund Einar Daðason hvort ekki hefði verið „skynsamlegra að birta niðurstöður rannsóknarinnar“ áður en framboð Braga var tilkynnt.

United-nations-flag-background-international-flags-35268136Aðförin að Braga Guðbrandssyni af hálfu Pírata sneri að framboði hans í barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna.

Annar þingmaður Pírata, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, lét einnig að sér kveða í þessu máli meðal annars 2. maí 2018 með fyrirspurn til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra sem fól sér gagnrýni á ráðherrann fyrir að hafa ákveðið að fram færi óháð úttekt á tilteknum málum á sviði barnaverndar hér á landi vegna þessara umræðna um framboð Braga Guðbrandssonar. Þórhildur Sunna sakaði forsætisráðherra um að „stíga inn í störf Alþingis þegar það sinnir eftirlitsskyldum sínum og tefja þau fram að sumarfríi“ þingmanna. Spurði hún að lokum: „Stendur hæstv. forsætisráðherra enn að baki því að Bragi Guðbrandsson verði fulltrúi Íslands í barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna í ljósi þeirra upplýsinga sem nú þegar liggja fyrir?“

Hvernig sem á það er litið er mjög óvenjulegt að þingmenn gangi á þennan hátt fram gegn embættismanni í sölum alþingis og hefði mátt ætla að það væri gert í krafti óyggjandi gagna og upplýsinga. Sérstaklega þegar Stundin og þingmenn Pírata eiga í hlut þar sem engir hafa gengið harðar fram en einmitt þessir aðilar í gagnrýni á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra fyrir að sinna ekki rannsóknarskyldu samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Beittu Píratar undir forystu Þórhildar Sunnu sér meðal annars fyrir vantrauststillögu gegn dómsmálaráðherranum af því að hún var ekki talin hafa sinnt þessari skyldu nægilega vel að mati hæstaréttar.

Úttektinni sem forsætisráðherra beitti sér fyrir á stjórnsýslunni vegna gagnrýni á Braga Guðbrandsson lauk fyrir þinglok og voru niðurstöður hennar birtar 8. júní. Síðan hefur lítið farið fyrir upphrópunum af hálfu Halldóru Mogensen og Þórhildar Sunnu. Væru þær sjálfum sér samkvæmar ættu þær að biðjast afsökunar á upphlaupi sínu. Stjórnsýslureglur voru ekki í heiðri hafðar í máli Braga Guðbrandssonar þar á meðal var brotið gegn 10. gr. laganna um rannsóknarskyldu.

Skyldi þingmaður Pírata sem hafði samband við norræn sendiráð til að vinna gegn framboði Braga hjá Sameinuðu þjóðunum biðjast afsökunar á óvönduðum vinnubrögðum?