22.2.2018 12:12

Þingmaður VG vill lækka auðlindagjald - formaður Viðreisnar á móti

Formaður Viðreisnar segist sammála vandanum sem Lilja Rafney lýsir en vill samt ekki leggja til að hann verði leystur með því að lækka „sanngjarnt gjald fyrir aðgang að auðlindinni“.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar alþingis og þingmaður vinstri-grænna (VG) flutti ræðu undir dagskrárliðnum störf þingsins miðvikudaginn 21. febrúar 2018 og sagði meðal annars: 

„Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að ræða um fiskvinnslu og útgerð í hinum minni byggðum og lítil og meðalstór fyrirtæki. Veiðigjöldin hafa verið til umræðu í atvinnuveganefnd frá því í janúar. Við höfum fengið til okkar fjölda gesta til að fara yfir þau mál. Í undirbúningi í ráðuneytinu er endurskoðun á veiðigjöldum. Það eru miklar áhyggjur hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum og sveitarfélögum þar sem sú vinnsla og sú útgerð er uppistaðan í atvinnu, að margir gefist upp og hætti og það verði áframhaldandi samþjöppun. 

Við höfum líka fengið til okkar fulltrúa frá fiskmörkuðum sem hafa áhyggjur því að það eru þessi litlu og meðalstóru fyrirtæki sem halda fiskmörkuðum gangandi. Það væri svipur hjá sjón ef ekki væru fiskmarkaðir hér í landi. 

Þetta getur gerst mjög hratt. Við verðum að horfast í augu við það og bregðast við. Það þolir engin lítil útgerð að veiðigjöldin hækki um 200–300% eins og verið hefur, það er veruleikinn. Það þarf að bregðast við því.“ 

Þarna talar þingmaður VG gegn of háum veiðigjöldum á útgerð. Lilja Rafney segir að gjöldin séu að ganga að litlum útgerðum dauðum. Það verði „samþjöppun“, stórútgerðir gleypi litlar og fiskmarkaðir hverfi.

Images_1519301505155Myndin er af vefsíðunni bbl.is

Þorgerður K. Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, gegndi embætti sjávarútvegsráðherra í um 11 mánuði árið 2017. Þorgerður K. sagðist sammála formanni atvinnuveganefndar en með fyrirvara: 

„Ég vara við því, og ég gerði það líka á fundi atvinnuveganefndar í gær, að bráðavandi tiltekinna lítilla fyrirtækja verði hagnýttur til að festa í sessi óréttlæti þegar kemur að því að greiða sanngjarnt gjald fyrir auðlindina. Ég vara við því að þessi vandi verði til þess að festa í sessi óréttlæti þegar kemur að þessu gjaldi, eðlilegu sanngjörnu gjaldi fyrir aðgang að auðlindinni.“ 

Þorgerður K. gaf til kynna að vegna aðildar VG að ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki kynni Lilja Rafney að láta spillast af sjónarmiðum manna sem hefðu í áraraðir „móast við“ að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrána og „að koma á þessu sanngjarna gjaldi fyrir aðgang að auðlindinni“. Vildi Þorgerður K. „vara við því að nýta sér þennan bráðavanda“ til að „festa í sessi óréttlæti“. 

Formaður Viðreisnar segist sammála vandanum sem Lilja Rafney lýsir en vill samt ekki leggja til að hann verði leystur með því að lækka „sanngjarnt gjald fyrir aðgang að auðlindinni“ vegna skoðana sem hún telur Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn hafa. Þeir vilji „óréttlæti“. Hvað felst í þessu orði hjá formanninum? Er „óréttlæti“ að lækka auðlindagjald til að tryggja líf lítilla og meðalstórra útgerða auk fiskmarkaða? 

Þá er rangt að Sjálfstæðismenn hafi lagst gegn ákvæði um að staðfesta í stjórnarskrá eign þjóðarinnar á auðlindum sjávar. Orðalag og skýring á inntaki ákvæðisins hefur á hinn bóginn vafist fyrir mönnum í öllum flokkum. 

Orðaskiptin á alþingi miðvikudaginn 21. febrúar vekja enn einu sinni spurninguna: Hver er í raun skoðun formanns Viðreisnar?