26.3.2019 10:58

Þingið tekur dagskrárvaldið af May

Ríkisstjórnin ræður að jafnaði hvaða mál eru lögð fyrir þingið og hvernig þingmenn verja tíma sínum. Nú hefur þetta vald verið tekið af stjórninni í Brexit-málinu.

Ný staða varð í neðri málstofu breska þingsins að kvöldi mánudags 25. mars þegar samþykkt var með 329 atkvæðum gegn 302 að taka völdin af ríkisstjórn Theresu May í Brexit-málinu. May treysti sér ekki til að leggja tillögu sína um skilnaðarskilmálana við ESB í þriðja sinn fyrir þingið af ótta við að hún yrði enn einu sinni felld.

Fb9753d_SIN107_BRITAIN-EU-_0325_11Ríkisstjórnin ræður að jafnaði hvaða mál eru lögð fyrir þingið og hvernig þingmenn verja tíma sínum. Nú hefur þetta vald verið tekið af stjórninni í Brexit-málinu og miðvikudaginn 27. mars verður leitað að því sem kalla má lægsta samnefnara meðal þingmanna. Hann kann að felast í mildara Brexit en May hefur boðað eða í því að málinu verði skotið á frest fram yfir þingrof og nýjar kosningar til að losna við May úr embætti forsætisráðherra.

Á ensku er talað um að nú fari fram inidicative vote það er vísbendingar-atkvæðagreiðsla sem felur í sér að í ljós komi hvert meirihluti þingmanna vilji stefna. Áður en neðri deildin samþykkti að fara þessa leið hafði May varað við henni, hún skapaði „hættulegt fordæmi“ og „raskaði jafnvægi milli lýðræðislegra stofnana“.

Í BBC World Service var að morgni þriðjudags 26. mars rætt við stjórnlagafræðing. Spurði fréttamaðurinn hvort líta bæri á stöðuna nú sem constitutional crisis. Svarið var: Nei, constitutional curiosity – ekki stjórnlagakreppa, heldur stjórnskipulegt furðuverk.

Þegar þetta er ritað er ekki vitað hvaða tillögur koma til atkvæða í þinginu miðvikudaginn 27. mars. Þær geta orðið um tillögu forsætisráðherrans, um Brexit án samnings, um samning að fordæmi fríverslunarsamnings ESB og Kanada, hugmynd Verkamannaflokksins um tollabandalag og náin tengsl við sameiginlega (innri) markaðinn; sameiginlega markað 2.0 tillögur; samstarf á grunni EES; afturköllun úrsagnar eða nýja þjóðaratkvæðagreiðslu.

Theresa May heldur fast í eigin tillögu og lofar ekki að vinna að framgangi annarrar. Hvað gerist feli þingið henni að fara aðra leið úr ESB? Í Bretlandi er þingræði og fari ríkisstjórn ekki að vilja þingsins fellur hún.

Eitt er víst að þeir sem ætluðu að skjóta tappa úr kampavínsflösku föstudaginn 29. mars til að fagna útgöngu Breta úr ESB verða að finna sér annað til dundurs.