29.8.2019 8:47

Þinghald hér og þar tengist ESB

Alþingi var kallað saman til þriggja daga fundar til að þóknast miðflokksmönnum sem höfðu ekkert nýtt til málanna að leggja. Í Bretlandi eru þingmenn sendir heim til að ríkisstjórnin hafi starfsfrið og allt ætlar vitlaust að verða.

Alþingi kom saman til þriggja daga funda í gær (28. ágúst). Eitt mál er á dagskrá, þingsályktunartillaga um innleiðingu þriðja orkupakkans og fylgifrumvörp hennar. Umræður um þingsályktunartillöguna stóðu allan gærdag í dag eru fylgifrumvörpin til afgreiðslu. Greidd verða atkvæði um málin 2. september. Síðan verður 149. þingi slitið og 150. þing kemur saman síðar í september.

1154298Miðflokksmennirnir Karl Gauti Hjaltason og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson höfðu ekkert nýtt til mála að leggja miðvikudaginn 28. ágúst þegar þing kom saman til að ræða þriðja orkupakkann. Mynd af mbl.is.

Að þessu sinni var afgreiðslu orkupakkamála frestað í júní að ósk Miðflokksins. Þar á bæ ætluðu menn að safna nýjum gögnum yfir sumarið og koma tvíefldir til leiks nú í lok ágúst, ekki aðeins vopnaðir nýjum rökum heldur með lið utan þings að baki sér.

Hvorugt hefur ræst. Engar nýjar upplýsingar um málið hafa verið kynntar. Fjöldafylgið lætur á sér standa. Spjótum hefur aðallega verið beint að Sjálfstæðisflokknum. Til að sanna að grasrótin þar láti ekki bjóða sér stuðning þingflokksins við orkupakkann stofnuðu formenn nokkurra reykvískra hverfafélaga til söfnunar undirskrifta til að knýja fram atkvæðagreiðslu um pakkann meðal flokksmanna. Söfnuninni verður fram haldið eftir að alþingi hefur afgreitt málið!

Að Miðflokkurinn slái sér upp á þessu máli er af og frá. Flokkurinn sannar aðeins upphlaups- og uppnámseðli sitt. Það kann að höfða til einhverra í skamman tíma en varir ekki til lengdar.

Staðan í Bretlandi

Með allt þetta í huga verður forvitnilegt að sjá hvernig Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, vegnar eftir að hafa gengið gegn vilja Johns Bercows, forseta neðri deildar breska þingsins, og andstæðinga brexit án samnings og fengið samþykki Bretadrottningar við að senda þingið heim ekki síðan en 12. september, nokkrum dögum eftir að það kemur saman eftir sumarhlé í næstu viku, og þar til stefnuræða stjórnarinnar verður flutt á þinginu 14. október, sautján dögum fyrir brexit, 31. október 2019.

Bogi Þór Arason, blaðamaður Morgunblaðsins, segir:

„Venja er að breska þingið sé sent heim í skamman tíma, yfirleitt í apríl eða maí. Þingmenn halda þá sætum sínum og stjórnin situr áfram en engin umræða og engar atkvæðagreiðslur fara fram á þinginu. Þingið er þó ekki rofið eins og gert er þegar boðað er til kosninga.

Þetta er yfirleitt gert einu sinni á ári en þingið hefur nú starfað í rúm tvö ár, lengur en nokkru sinni fyrr í nær 400 ár, án þess að hafa verið sent heim með þessum hætti, eða frá því að nýtt þing var sett eftir kosningar í júní 2017. Þinginu hefur verið lokað í mislangan tíma, t.a.m. í fjóra vinnudaga árið 2016 og þrettán vinnudaga tveimur árum áður, að því er fram kemur á fréttavef BBC. Johnson vill nú að þingið verði lokað í u.þ.b. 23 vinnudaga áður en Bretadrottning flytur stefnuræðu stjórnarinnar.“

Boris Johnson segir að hann vilji þetta hlé til að undirbúa tillögur stjórnar sinnar um umbætur á breskum heimavelli sem kynntar verði í stefnuræðu drottningar. Andstæðingar hans blása á þau rök og saka hann um stjórnarskrárbrot.

Athyglisvert er hve vefst fyrir fréttamönnum ríkisútvarpsins að lýsa fyrir hlustendum hvað ber hæst í breskum stjórnmálum. Í gær var sagt í fréttum að forsætisráðherrann vildi að þingi yrði „slitið“ í morgun talaði fréttamaður um „þingrof“. Hvorugt er rétt. Bretar nota orðið prorogation um þennan gjörning, í íslenskri orðabók er orðið íslenskað með þingfrestun. Bogi Þór kemst vel að orði þegar hann segir að þingmenn verði „sendir heim“. Hann segir einnig:

„Sú venja hefur komist á að hlé sé gert á störfum þingsins, án þess að senda það heim, þegar þrír helstu stjórnmálaflokkar Bretlands halda árlega landsfundi sína en búist var við að meirihluti þingsins myndi hafna því að hlé yrði gert á störfum þingsins vegna landsfundanna í ár. Þingmenn geta hins vegar ekki greitt atkvæði um beiðni um að þingið verði sent heim.“

Alþingi var kallað saman til þriggja daga fundar til að þóknast miðflokksmönnum sem höfðu ekkert nýtt til málanna að leggja. Í Bretlandi eru þingmenn sendir heim til að ríkisstjórnin hafi starfsfrið og allt ætlar vitlaust að verða.