23.10.2019 10:44

Þingbrellur gegn Boris og brexit

Í fjölmiðlum sem vilja veg Boris Johnsons sem minnstan er samþykkt þessarar tæknilegu tillögu hampað í fyrirsögnum og jafnvel ekki minnst á efnislega sigur forsætisráðherrans.

Þingmenn í neðri deild breska þingsins samþykktu brexit í fyrsta sinn frá þjóðaratkvæðagreiðslunni í júní 2016. Þeir veittu samningnum sem Boris Johnson forsætisráðherra gerði við ESB fimmtudaginn 17. október 2019 brautargengi. Í fréttum hafa þessi stórtíðindi fallið í skuggann á tillögu sem þingmennirnir samþykktu og miðar að því að tefja framgang brexit fram yfir 31. október. Í fjölmiðlum sem vilja veg Boris Johnsons sem minnstan er samþykkt þessarar tæknilegu tillögu hampað í fyrirsögnum og jafnvel ekki minnst á efnislega sigur forsætisráðherrans.

_109335189_057467059-1Tom Harris var á sínum tíma þingmaður og ráðherra breska Verkamannaflokksins. Hann leiddi brexit-baráttuna í Skotlandi en starfar nú sem dálkahöfundur og almannatengill. Í grein í The Daily Telegraph vegna atkvæðagreiðslunnar í neðri málstofu breska þingsins 22. október minnir hann á að árið 1997 hafi ríkisstjórn Verkamannaflokksins bundið enda á málþóf í neðri málstofunni með breytingu á þingsköpum. Þetta gerðist eftir langvinnar deilur um lágmarkslaun.

Til að binda enda á takmarkalausan ræðuflutning í þingsalnum eða meðferð mála í þingnefndum beitti ríkisstjórn Verkamannaflokksins sér fyrir því að sett voru dagskrár-ákvæði í þingskapalögin. Leggja skyldi tillögu fyrir þingdeildina þar sem ákveðið var hve langan tíma mál ætti að fá á öllum stigum þinglegrar meðferðar, það er í nefndum og í þingsalnum sjálfum. Þá skyldi einnig ákveðið klukkan hvað og á hvaða degi yrði gengið til atkvæða.

Harris segir að í stað þess að beita málþófi hafi þingmenn gripið til þess ráðs að flytja óteljandi breytingartillögur við mál sem þeir vildu eyðileggja. Þetta hafi þeim tekist í einstaka tilvikum og með því að fella dagskrártillöguna um viðskilnaðarsamninginn við ESB stefni þeir að því að beita þeirri aðferð við meðferð brexit-mála. Fyrir þeim vaki að velta vöngum yfir hverju einasta ákvæði í löngum lagatextum (um 400 bls.) og bregða þannig fæti fyrir áform Boris Johnsons um brexit 31. október 2019.

Harris segir að það sé hreinn fyrirsláttur hjá þingmönnum að þeir þurfi langan tíma til að skoða lagabálkinn. Hann segir:

„Þingmenn lesa ekki lagafrumvörp – þeir treysta á greinargerðir flokks síns, punkta frá eigin aðstoðarmönnum og frábæra útdrætti sem bókasafn neðri deildarinnar gerir. Flestir þeirra gera þó ekkert af þessu; þeir bíða aðeins þar til gengið er til atkvæða og fara þá að fyrirmælum atkvæðavarða flokksins.“

Harris segir að engar háleitar lýðræðislegar eða stjórnskipulegar ástæður séu fyrir því að þingmenn leggist gegn dagskrártillögunni, ástæðurnar séu pólitískar, málið snúist um að vinna sigur á Boris Johnson og draga úr vinsældum hans meðal kjósenda með því að grafa undan heitstrengingu hans um 31. október 2019 þegar hann varð forsætisráðherra í júlí.

Sigurinn í tæknilegu atkvæðagreiðslunni gleður andstæðinga breska forsætisráðherrans. Harris telur hins vegar að hann kunni að verða Verkamannaflokknum hættulegur í þeim kjördæmum þar sem meirihluti kjósenda vilji brexit. Þeir hafi eins og margir aðrir fengið sig fullsadda af þessum þingbrellum til að hindra framgang brexit.