2.11.2017 10:10

Þétting hnignandi miðborgar

Þétting byggðar er eitt af helstu hugsjónamálum meirihlutans í Reykjavíkurborg en stefnan hefur leitt af sér húsnæðisskort og hækkun á húsnæðiskostnaði.

Þess er minnst um þessar mundir að 100 ár eru liðin frá byltingunni í Rússlandi í þágu hugsjónar sem talin er hafa kostað að minnsta kosti 100 milljónir manna lífið. Innrætingin var mest í Kambódíu á tíma Pols Pots sem stillti á ártalið 0 og hóf ferðina til fyrirheitna landsins. Stefnunni var framfylgt af svo miklum þunga að sæist maður með gleraugu var hann tafarlaust handtekinn og aflífaður vegna grunsemda um að þar væri menntamaður á ferð.

Hugsjónabarátta sem hirðir hvorki um almenna skynsemi né sanngjarna framgöngu gagnvart vantrúuðum leiðir hættulega oft til öfga.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir þéttingu byggðar í Reykjavík hægja á framkvæmdum. Hún auki á flækjustig. Afgreiðsla á beiðnum vegna einstakra framkvæmda taki langan tíma. „Það er heilmikil spurn eftir húsnæði og framboð hefur verið of lítið. Saman hefur þetta leitt til mikillar verðhækkunar,“ segir hann við Morgunblaðið.

Þétting byggðar er eitt af helstu hugsjónamálum meirihlutans í Reykjavíkurborg en stefnan hefur leitt af sér húsnæðisskort og hækkun á húsnæðiskostnaði. Talsmenn þéttingarinnar mæla helst með henni til að skapa skemmtilega „miðborgarstemmningu“.

Á þá „stemmningu“ reynir nú enn einu sinni þessa dagana í tilefni af Iceland Airwaves sem leiðir af sér lokun hluta Laugavegar og Skólavörðustígs við litla ánægju þeirra sem halda úti atvinnustarfsemi á þessum slóðum. Á forsíðu ViðskiptaMoggans í dag (2. nóvember) segir Gunnar Guðjónsson, varaformaður Miðbæjarfélagsins og kaupmaður við Laugaveginn síðan árið 1972:

„Ég hef aldrei séð aðra eins hnignun. Fólki finnst orðið leiðinlegt að koma í miðborgina. Lokunartímabilum Laugavegar og Skólavörðustígs fjölgar stöðugt og þau lengjast. Erfitt er að fá bílastæði, stöðugjöld og aukastöðugjöld eru há og allt hnígur þetta að því að búa til andstöðu gagnvart miðborginni.

Krafa okkar er að allar hindranir verði teknar í burtu. Þegar búið er að hrekja viðskiptavininn í burtu, getur tekið kannski 10-15 ár að fá hann til baka.“

Heiða Lára Aðalsteinsdóttir, formaður félagsins og kaupmaður við Skólavörðustíg, tekur í sama streng og segir:

„Það er áhyggjuefni hve margar verslanir eru að leita í önnur hverfi. Borgin mætti styðja meira við verslunareigendur og hafa meira samráð. Ef ætlunin er að loka borginni meira og meira þá þarf að bæta samgöngur til að auðvelda aðgengi fólks að miðbænum.“

Þegar orð Sigurðar, Gunnars og Heiðu Láru eru lesin er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að ekki sé heil brú í skipulagsstefnu borgaryfirvalda. Þau hækka húsnæðisverð með skorti á lóðum vegna þéttingar byggðar og leggja síðan stein í götu þeirra sem starfa og búa í þéttari byggð.

Allt er þetta hluti af innrætingarstefnu sem miðar að því að útrýma einkabílnum. Samhliða því sem byggð er þétt er bílastæðum fækkað og leitast við að hindra umferð ökutækja, annarra en reiðhjóla, um þá staði þar sem byggðin er þéttust. Hugsjónabaráttan hefur einfaldlega hagsmuni borgarana að engu.