9.6.2017 9:42

Theresa May tók áhættu og tapaði

May vildi að kosningabaráttan snerist um sig. Hún hélt ekki vel á vopnum sínum. Hún klúðraði kynningu á kosningastefnuskránni.

Það má segja einkenni Thereseu May að lítið sé að marka orð hennar. Eftir að hún varð forsætisráðherra eftir sigur Brexit-sinna í þjóðaratkvæðagreiðslunni  23. júní 2016 sagði hún margsinnis að ekki yrði boðað til kosninga, stjórnin mundi sitja áfram til 2020 og ljúka viðræðunum við ESB.

Fyrir tveimur mánuðum ákváð May hins vegar að rjúfa þing og efna kosninga og sagði að að tapaði hún 6 þingmönnum mundi Jeremey Corbyn verða forsætisráðherra, valið stæði milli síns og hans. Nú bendir allt til þess að May hafi tapað 13 þingsætum og fái 318 þingmenn, hana skorti 8 atkvæði til að hafa meirihluta á þingi. Verkmannaflokkurinn fái 261 þingmann og þingmönnum þeirra fjölgi um 29 miðað úrslitin 2015. Í Skotlandi tapaði Skoski þjóðarflokkurinn 21 þingsæti, fékk 35 þingmenn. Alex Salmond, fyrrv. formaður flokksins féll. Draumur þjóðarflokksins um aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði er fjarlægari en áður.

Þótt May hafi tapað 13 þingsætum hefur hún boðað komu sína til Elísabetar II. Bretadrottningar kl. 11.30 að ísl. tíma til að kynna henni nýja ríkisstjórn og óska eftir umboði til að mynda hana. May fer ekki með þennan boðskap til drottningar nema hún telji sig hafa meirihluta að baki sér á þingi – að öðrum kosti ber henni að gefa drottningu það ráð að fela Jeremy Corbyn umboð til stjórnarmyndunar. Hann getur ekki snúið sér beint til drottningarinnar og drottninginn getur ekki veitt neinum umboð án ráðgjafar forsætisráðherrans.

May vildi að kosningabaráttan snerist um sig. Hún hélt ekki vel á vopnum sínum. Hún klúðraði kynningu á kosningastefnuskránni. Hún kaus að taka ekki þátt í sjónvarpskappræðum við Corbyn. Það mæltist illa fyrir og almennt tókst henni illa upp í sjónvarpsþáttum vegna kosninganna. Hún flutti magnaða ræðu eftir hryðjuverkin í London um síðustu helgi en ódæðisverkin urðu hins vegar til þess að draga athygli að fækkun lögreglumanna um 20.000 á meðan May var innanríkisráðherra.

May boðaði „harða Brexit-stefnu“ fyrir kosningar. Hún fékk ekki umboð til að fylgja henni. Taki hún upp „mjúka Brexit-stefnu“ liggur leiðin inn í EFTA og EES-samstarfið.

Jeremy Corbyn sigraði í kosningabaráttunni, einlægni hans og framganga höfðaði til kjósenda, einkum ungs fólks. Nú segja gagnrýnendur Corbyns í Verkamannaflokknum að hann ætti að nota persónutöfra sína til að sameina þingflokkinn að baki sér en innan hans hefur Corbyn sætt þungri gagnrýni. Staða Corbyns er lík og staða Donalds Trumps innan flokks repúblíkana, forystusveit flokksins er gagnrýnin á hann þótt kjósendur hrífist af honum.