18.4.2017 11:19

Theresa May boðar þingrof og kosningar

Enginn vafi er á að tillaga May um þingrof og kosningar verður samþykkt á þingi. Leiðtogar Verkamannaflokksins og Frjálslynda flokksins hafa lýst stuðningi við hana. Hvað annað? Þeir hafa á stefnu sinni að koma Íhaldsmönnum frá völdum.

Theresa May, forsætisráðherra Breta, tilkynnti í dag að á morgun mundi hún leggja til við breska þingið að þingið verði rofið og efnt til kosninga fimmtudaginn 8. júní.

Áður hafði breski forsætisráðherrann í hendi sér að rjúfa þing og efna til kosninga en eftir að David Cameron, forveri May og flokksbróðir, myndaði samsteypustjórn með frjálslyndum voru sett lög um að þing yrði ekki rofið nema með samþykki aukins meirihluta þingmanna.

Enginn vafi er á að tillaga May um þingrof og kosningar verður samþykkt á þingi. Leiðtogar Verkamannaflokksins og Frjálslynda flokksins hafa lýst stuðningi við hana. Hvað annað? Þeir hafa á stefnu sinni að koma Íhaldsmönnum frá völdum.

Rökin fyrir ákvörðun Theresu May, sem hún tók þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar um að ekki yrði kosið til þings fyrr en 2020, eru að án meiri samstöðu á breska þinginu en nú er verði erfitt fyrir hana að gæta hagsmuna Breta í komandi úrsagnar-viðræðum við ESB. Hún þurfi skýrt og ótvírætt umboð til að framfylgja ákvörðun þjóðarinnar um úrsögn úr ESB.

May1-largeTheresa May tilkynnir þingrof og kosningar.

Stuðningsmenn May benda á að hún hafi setið undir ásökunum frá stjórnarandstöðunni um að hafa ekki umboð til að semja við ESB á þeim forsendum sem hún hefur kynnt – það er að annaðhvort nái hún góðum samningi fyrir Breta eða ekki verði samið um neitt við ESB. 

Frjálslyndir segja að afstaða May sé of harkaleg. Þeir vilja fara mýkri leið út úr ESB og munu berjast undir þeim merkjum við Íhaldsflokkinn. Verkamannaflokkurinn er í raun forystulaus og erfitt að ráða í hvaða stefnu hann mótar í ESB-málum og öðrum fyrir kosningarnar.

Á það er bent að kosningar 8. júní raski ekki á neinn hátt tveggja ára tímaáætluninni um úrsögn Breta sem er hafin. May hafi valið rétta tímann í öllu tilliti.

Kosningabaráttan hefst í Bretlandi á lokadögunum fyrir fyrri umferðina í forsetakosningunum í Frakklandi þar sem allt er í óvissu um úrslitin. Kosið verður til franska þingsins í sumar. Í Þýskalandi eru flokkarnir að þétta raðir sínar vegna kosninga til sambandsþingsins í Berlín í september.

Í öllum stærstu lýðræðisríkjum Evrópu verður gengið til þingkosninga á næstu mánuðum. Líkur á skýrum og ótvíræðum úrslitum eru mestar í Bretlandi þar sem Íhaldsflokkurinn mælist nú með 21% stigum meira fylgi en Verkamannaflokkurinn. Sumir segja að Íhaldsflokkurinn fái 200 fleiri þingmenn kjörna en Verkamannaflokkurinn,

Í Frakklandi og Þýskalandi er aðildin að ESB meðal málanna sem valda mestri óvissu um þróun stjórnmála í landinu – reiptogið milli fullveldissinna og talsmanna yfirþjóðlegs valds grefur undan trú á gildi lýðræðisins, að kjósa fulltrúa á þing segi aðeins hálfa söguna vegna Brusselvaldsins. 

Bretar eru á leið undan fjölþjóðlegu miðstjórnarvaldi og þar verða línurnar skýrar.