12.12.2018 10:53

Theresa May berst til þrautar

Theresu May er í raun hagstætt að til uppgjörs komi á þessari stundu, tveimur dögum eftir að hún neyddist til að afturkalla ESB-skilnaðartillögu sína.

Mánuðum saman hefur stefnt að uppgjöri innan þingflokks breska Íhaldsflokksins. Theresa May forsætisráðherra hefur lengi ekki notið óskorað trausts sem flokksleiðtogi. Þingflokkurinn hefur vald til að velta henni úr sessi. Nú þarf 48 þingmenn (15% þingflokksins) til að setja þetta ferli af stað. Andstæðingur leiðtogans sendir bréf til formanns 1922 nefndarinnar, það er formanns þingflokksins. Hann er nú Sir Graham Brady (frá 2010). Að kvöldi þriðjudags 11. desember sendi 48. íhaldsþingamaðurinn honum bréf og ferlið hófst.

Theresa May sagði að morgni miðvikudags 12. desember að hún ætlaði að berjast til þrautar. Til að halda stöðu sinni þarf hún að fá stuðning meira en helmings þingflokksins, 158 atkvæði. Njóti hún þess stuðnings situr hún á friðarstóli í 12 mánuði. Nái hún ekki þessum meirihluta situr hún áfram þar til nýr leiðtogi er kjörinn. Henni er óheimilt að bjóða sig fram í leiðtogakjörinu. Þingflokkurinn velur tvo úr sínum hópi og félagar í Íhaldsflokksins kjósa á milli þeirra í póstatkvæðagreiðslu.

TELEMMGLPICT000183472913_trans_NvBQzQNjv4BqM37qcIWR9CtrqmiMdQVx7KqYHJNTX-HMwb5TYhYH37IÞessi mynd birtist á vefsíðunni The Telegraph. Hún sýnir Theresu May ganga inn í Downing-stræti að morgni miðvikudags 12. desember eftir að hún sagðist ætla að berjast til þrautar., Blaðið hallast að þeim sem vilja hana úr embætti. Myndin gefur það einnig til kynna.

Theresa May hittir þingflokk sinn klukkan 17.00 í dag. Klukkan 18.00 hefst kosning í þingflokknum og henni lýkur klukkan 20.00. Skömmu síðar verða úrslitin kunn.

Sterkustu rök þeirra sem nú koma fram í þágu May er að þetta sé vitlausasti tíminn til að vega að forsætisráðherranum. May vinni markvisst að því að vinna að úrsögn Breta úr ESB. Að taka málið upp með nýjum manni á þessari stundu sé aðför að hagsmunum Breta. Þeir telja með öðrum orðum að þjóðarhagsmunir séu í húfi þegar þingflokkurinn veltir framtíð May fyrir sér og að þeim sé vegið standi þingmenn ekki að baki forsætisráðherranum.

Theresu May er í raun hagstætt að til uppgjörs komi á þessari stundu, tveimur dögum eftir að hún neyddist til að afturkalla ESB-skilnaðartillögu sína. Þetta var svo niðurlægjandi fyrir hana að efast mátti um umboð hennar sem flokksleiðtoga. Nú er tekist á um það á lýðræðislegan hátt.

May þarf aðeins eins atkvæðis meirihluta í þingflokknum til að sigra. Miðað við staðfestu hennar og varnaðarorðin um hættuna af því að hrófla við leiðtoganum á þessu stigi er líklegt að hún sitji áfram með svo lítinn meirihluta. Sjónarmið margra þingmanna Íhaldsflokksins ræðst af því að þeir vilja skapa frið innan eigin raða með því að frysta ágreininginn um May í eitt ár.

Hitt er ljóst að deilan um Theresu May og lausn hennar leysir ekki Brexit-vandann. Hann blasir óleystur við öllum. Enginn breskur stjórnmálamaður virðist hafa burði til að leiða hann til farsællar niðurstöðu.