Þegar vinstrið hvarf
Sé litið á úrslitin í þingkosningunum 30. nóvember með þessa mynd í huga eru stærstu tíðindi að í stað fjögurra flokka í efra vinstra horni er þar aðeins einn núna, Samfylkingin, með rúm 21% atkvæða.
Snemma í kosningadagskrá ríkissjónvarpsins laugardaginn 30. nóvember birti Ólafur Þ. Harðarson, fyrrv. stjórnmálafræðiprófessor, mynd til skýringar á stöðu íslenskra stjórnmálaflokka. (Skjámynd af þessari skýringarmynd fylgir.)
Í efra vinstra horni myndarinnar voru fjórir flokkar: Píratar, Samfylking, VG og Sósíalistar – þar á móti í hægra horni var Viðreisn. Fyrir neðan línu sem ætlað er að marka skil á milli „vók-flokka“ og íhaldssamri flokka var enginn flokkur í vinstra horni. Flokkur fólksins var á miðjum ásnum milli vinstri og hægri en Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur voru í hægra neðra horni.
Sé litið á úrslitin í þingkosningunum 30. nóvember með þessa mynd í huga eru stærstu tíðindi að í stað fjögurra flokka í efra vinstra horni er þar aðeins einn núna, Samfylkingin, með rúm 21% atkvæða.
VG og Píratar hverfa af þingi og Sósíalistar náðu ekki manni.
Með Pírötum hverfur sundurlaus hópur fólks af þingi. Hann taldi sig helst eiga það erindi að stuðla að opnum landamærum og jagast í öðrum, einkum Sjálfstæðisflokknum, með ásökunum um spillingu.
Píratinn Björn Leví Gunnarsson gat sér orð fyrir að ganga skólaus um þingsalinn og leggja raðspurningar fyrir ráðherra og ráðuneyti. Þingmenn Pírata héldu nýju stjórnarskránni fram eins lengi og þeir töldu sér fært. Álitamál er hvort Píratar séu stjórnmálaflokkur í hefðbundnum skilningi þess orðs vegna þess hve allt skipulag hópsins er laust í reipunum. Valdakjarni flokksins situr nú í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.
VG, Vinstrihreyfingin – grænt framboð, varð til á tíunda áratugnum að tilstuðlan þriggja manna í þingflokki Alþýðubandalagsins – Hjörleifs Guttormssonar, Steingríms J. Sigfússonar og Ögmundar Jónassonar – þegar sást til lands í viðleitni vinstri manna til að mynda sameiginlega hreyfingu gegn Sjálfstæðisflokknum. Samfylkinguna. VG var stofnuð 6. febrúar 1999 og fékk kjörna sex þingmenn í alþingiskosningum í maí 1999.
VG má líta á sem róttæka arminn úr Alþýðubandalaginu. Flokkurinn hefur til dæmis haldið fast í andstöðuna við aðildina að NATO og varnarsamstarfið við Bandaríkin, jafnvel þegar flokksformaðurinn Katrín Jakobsdóttir var forsætisráðherra og sat hvern ríkisoddvitafund NATO eftir annan og ritaði undir endurnýjaða grunnstefnu bandalagsins árið 2022. Þá hefur VG dregið lappirnar í atvinnumálum í nafni umhverfis- og dýraverndar fyrir utan andstöðu við að einkaaðilar fái svigrúm til að láta að sér kveða á sviðum sem ríkið hefur einokað.
Þingumræður eiga eftir að breytast við brotthvarf þessara radda. Þá hljóta þeir sem taka nú til við stjórnarmyndun að hafa í huga að það birtist enginn byr með því í kosningunum að hlaða undir sjónarmið vinstrisinna í Samfylkingunni. Vindarnir blésu til hægri og þar er Sjálfstæðisflokkurinn áfram þungamiðja þótt hann megi muna sinn fífil fegri.
Fyrir 30 árum stigu vinstrisinnar skref til að sameinast. Þótt það hafi ekki borið settan árangur ættu borgaraleg öfl á Íslandi ekki að láta það hindra sig í að starfa nánar saman þjóðinni til heilla, til dæmis með því að huga nú að myndun ríkisstjórnar í anda þjóðarviljans sem birtist í úrslitum kosninganna.