28.4.2019 11:33

Þegar þriðji orkuboltinn fór af stað

Þáttaskil urðu snemma árs 2018. Þá voru miklar deilur um málið í Noregi en stórþingið þar samþykkti að lögfesta þriðja orkupakkann 22. mars 2018.

Nú eru rúmlega tvö ár frá því að vesíða mín var færð í þann búning sem við blasir þegar hún er opnuð. Hugsmiðjan vann það verk fyrir mig og gjörbreytti til dæmis öllu leitarkerfinu fyrir utan að auðvelda uppfærslu á því sem hér birtist á Facebook.

Þetta hef ég notfært mér og hafa oft spunnist líflegar umræður um það sem hér segir á þeim vettvangi. Frá upphafi, fyrir rúmum 24 árum, mótaði ég þá reglu að hafa ekki athugasemdakerfi á síðunni sjálfri. Var það skynsamleg ákvörðun, þótt hún sætti gagnrýni ýmissa. Það hefði í raun verið of þungur baggi að bera ábyrgð á öllu sem menn kynnu að hafa sagt hér á síðunni hefðu þeir fengið samþykki mitt við að láta álit sitt í ljós.

Á Facebook hefur maður kost á að útiloka þá sem ganga fram af manni í málflutningi sínum. Þetta er góður kostur sem ég hef margsinnis nýtt mér, ekki síst undanfarnar vikur og mánuði þegar orðbragð og málflutningur þeirra sem eru ósammála mér í afstöðunni til þriðja orkupakkans hafa nýtt sér síðuna mína á Facebook til að fara með rangfærslur og dylgjur.

Í þeirri orrahríð allri hef ég oft leitt hugann að því hvað veldur þessari heift. Eftir að ég hafði farið í saumana á málinu fyrir um það bil ári taldi ég málatilbúnaðinn gegn því að innleiða þetta sem hluta af EES-samningnum reistan á misskilningi eða vísvitandi rangfærslum. Ekkert herfur komið fram síðan sem breytir þessari efnislegu afstöðu minni – þvert á móti.

Index_1556450879133Úr sal norska stórþingsins. Í sama mund og þar var samþykkt að innleiða þriðja orkupakkann hófst andróður gegn honum hér á landi, meðal annars á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Þáttaskil í mars 2018

Við athugun á ferli málsins innan íslenska stjórnkerfisins kom í ljós að málið hafði verið á borði stjórnvalda frá 2010. Nefndir alþingis höfðu tekið jákvæða afstöðu til þess 2014, hluti þriðja orkupakkans hafði verið lögfestur árið 2015 og árið 2017 samþykkti ríkisstjórnin að þetta yrði EES-mál. Allt gekk þetta fyrir sig án umræðna utan stjórnkerfisins, ef svo má að orði komast.

Þáttaskil urðu snemma árs 2018. Þá voru miklar deilur um málið í Noregi en stórþingið þar samþykkti að lögfesta þriðja orkupakkann 22. mars 2018. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins var 16. til 18. mars 2018 og þar tóku menn allt í einu að tala gegn þriðja orkupakkanum og töldu sig hafa fengið samþykkta ályktun sem þeir hafa síðan túlkað sem andstöðu við aðild Íslands að pakkanum þótt svo sé ekki vegna þess að höfundar ályktunartextans rangtúlkuðu efni pakkans sem styður þá skoðun að þeir hafi verið knúnir áfram af Norðmönnum sem urðu undir í deilunum í stórþinginu. Ákvæði sem kunna að eiga við í Noregi eiga ekki við á Íslandi vegna þess að landið er eyja utan ESB-raforkukerfisins.

Eftir þetta fór þessi orkubolti að rúlla hér og tók síðan á sig stórundarlega mynd.

*

Næstu daga ætla ég að nota bjorn.is til að lýsa sýn minni á deilurnar sem nú eru uppi.

Ps. uppfærsla 13.00 sunnudag 28. apríl.

Skömmu eftir að pistillinn fór á Facebook birti Kristinn Hugason eftirfarandi athugasemd þar:

„Ég sat téðan landsfund, eins raunar alla landsfundi síðustu áratugina, og var nefndarmaður í atvinnuveganefnd, inn á fundi nefndarinnar, bæði í aðdraganda landsfundarins og á fundinum sjálfum, komu þá æstir menn og skipuðust hvorki við skömm né heiður, úr þeim stóð orðafossinn, beint ættaður frá norsku Nei til EU samtökunum og reyndu ekki einu sinni að leyna því. Ég reyndi nú sem óbreyttur nefndarmaður að amla gegn þessu, s.s. með að spyrja þá hvort almennt séð væri mark á téðum samtökum takandi (sem ég veit að er ekki, þekki nokk til þeirra ömurlega málflutnings gegn EES o.fl.). Mér ofbauð hins vegar linkuleg mótstaða þeirra er mótstöðu gátu veitt, á þeim stað og stundu. Allt önnur staða er nú uppi og var ég rétt í þessu að enda við að hlusta á afar gott viðtal við Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadottir í Silfrinu og mikið var ég sammála grunnskýringu hennar á þessum ósköpum. Vitaskuld verða þessi ósköp kveðin niður núna loksins en mikið eru þau búin að skemma! Það er með þetta mál eins og svo mörg önnur vandamálin, það á að kveða þau niður strax en ekki láta þau þróast.“