1.5.2020 9:42

Þegar 1. maí fluttist í sjónvarpssal

Því er spáð að margt breytist eftir að COVID-19-faraldurinn er að baki. Eitt af því kann að vera að 1. maí á Íslandi færist til frambúðar í sjónvarpssal.

Eitt er að í fyrsta sinn í tæp hundrað ár sé ekki unnt að efna til kröfugöngu og útifundar 1. maí hér á landi annað að íslensk verkalýðshreyfing gengur fram sundruð á þessum degi þegar COVID-19-faraldurinn veldur ofuratvinnuleysi og óvissu um framtíð ýmissa öflugustu fyrirtækja landsins.

Tvö íslensk dagblöð eru gefin út í dag og í hvorugu þeirra er minnst á 1. maí eða tilefni þess að hann er frí- og fánadagur. Hefði að óathuguðu máli mátt ætla að við þessar aðstæður þætti leiðarahöfundum sérstök ástæða til að ræða málstað þeirra sem telja hátíðisdaginn sér til framdráttar.

Í blöðunum er athygli dregin að deginum með auglýsingum. Á bls. 3 í Morgunblaðinu er heilsíðuauglýsing um dagskrá í ríkissjónvarpinu í kvöld og er RÚV meðal þeirra sem standa að auglýsingunni. Á bls. 7 auglýsir ASÍ réttlátt þjóðfélag eftir COVID-19-faraldurinn, á bls. 9 óskar VR lesendum blaðsins til hamingju með daginn, hann sé árleg áminning um „mátt samstöðunnar“. Félag vélstjóra og máltæknimanna er með 3ja dálka auglýsingu á bls. 10 með sama slagorði og ASÍ: Byggjum réttlátt þjóðfélag og áminningu um sjónvarpsdagskrána. Öryrkjabandalag Íslands er með pólitíska auglýsingu á bls. 11 með vísan til fyrirheita sem sögð eru hafa verið gefin 2006 en séu ekki enn framkvæmd. Á miðopnu er grein eftir Drífu Snædal, forseta ASÍ, undir fyrirsögninni: Velferð í skugga veiru.

961135Gömul kröfugöngumynd af mbl.is

Í heild er þetta frekar þunnur þrettándi og segir að umgjörð dagsins 1. maí er um næsta lítið þegar litið er til stöðu og starfs ASÍ um þessar mundir. Raunar er sambandið klofið ofan í rót eftir að Vilhjálmur Birgisson, foringi á Akranesi, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sögðu skilið við forystu ASÍ og hurfu úr stjórn sambandsins fyrir tæpum mánuði vegna ágreinings um viðbrögð við veirunni.

Það varð ekki til að auka virðingu ASÍ að vegna brotthvarfs Vilhjálms varð Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar-stéttarfélags, annar varaforseti sambandsins. Hún stendur nú í illdeilum við nokkur sveitarfélög og vill loka grunnskólum þeirra með verkföllum til að knýja fram betri samninga en hún hefur áður gert, til dæmis við Reykjavíkurborg. Stundum er talað um að svonefnt höfrungahlaup sé hættulegasta aðferðin til að grafa undan skynsamlegri kjarastefnu og góðum samningum. Að formaður Eflingar efni til slíks hlaups innan eigin félags án þess að forysta ASÍ taki í taumana sýnir best hve veikt sambandið er og hve holur hljómur er í hátíðaryfirlýsingu VR um „mátt samstöðunnar“.

Við venjulegar aðstæður í samfélaginu hefði ekki verið mikið fjölmenni í kröfugöngu ASÍ í dag. Ár frá ári hafa hátíðarhöldin fengið á sig æ fámennari svip. Að ríkisútvarpið skuli ganga til liðs við verkalýðshreyfinguna og úthluta henni tíma í sjónvarpsdagskrá sinni í stað þess að leika Internasjonalinn, senda út beint frá Ingólfstorgi og auglýsa kröfugönguna í hádegisfréttum kann að verða til þess að framvegis verði þetta fastur liður í dagskránni og menn hætti að bregða upp rauðum fánum á götum úti. Það er mun áhrifameira að gera það í sjónvarpssal þar sem Ragnheiður Gröndal, Bubbi Morthens, Amabadama, Jói P og Króli, Ellen Kristjáns og Auður, Jakob Birgisson uppistandari, KK og Lúðrasveit verkalýðsins koma fram með fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar. Fulltrúarnir verða eins og verðlaunahafar á árlegum viðurkenningarkvöldum í sjónvarpinu sem nota tækifærið til að flytja samfélagslegan boðskap eða kynna pólitíska sannfæringu sína.

Því er spáð að margt breytist eftir að COVID-19-faraldurinn er að baki. Eitt af því kann að vera að 1. maí á Íslandi færist til frambúðar í sjónvarpssal og þar fái verkalýðshreyfingin árlegan sess til að sýna sínar bestu hliðar með stuðningi landsfrægra listamanna.