22.6.2024 14:11

The Post og liðsauki í Efstaleiti

Innan fjölmiðlaheimsins er fylgst nákvæmlega með þessum sviptingum öllum. Þær eru til marks um hnignandi mátt þeirra sem nota blaðamennsku sem yfirvarp aðgerðarsinnans sem að baki býr.

Fréttir um sviptingar á The Washington Post minna á að fjölmiðlar lifa ekki á fornri frægð og sögu sinni heldur ræður framlag þeirra til miðlunar frétta og skoðana á líðandi stundu örlögum þeirra.

Milljarðamæringurinn Jeff Bezos, stofnandi Amazon, keypti The Post árið 2013 og bjargaði fjölmiðlaveldinu frá falli. Nú rúmum áratug síðar er blaðið komið í ritstjórnarlegt þrot. Sally Buzbee sagði skyndilega af sér sem ritstjóri The Post 2. júní 2024.

20151209_WapoBuildingPic

Í janúar 2024 réð Bezos Bretann William Lewis til að verða útgefandi og framkvæmdastjóri The Post en þá lá fyrir 77 milljón dollara tap frá fyrra ári og síminnkandi lesendahópur. Lewis var á sínum tíma ritstjóri The Daily Telegraph og síðar útgefandi The Wall Street Journal til ársins 2020.

Eftir að Sally Buzbee sagði af sér kynnti Lewis áform sín um að gera fyrrverandi samstarfsmann sinn á The Telegraph, Robert Winnett, að ritstjóra The Post. Við það fór allt í háaloft á ritstjórn The Post. Að morgni föstudagsins 21. júní var svo tilkynnt að Winnett yrði áfram aðstoðarritstjóri The Daily Telegraph.

Í frétt The Post um málið laugardaginn 22. júní segir að fram hefði komið undanfarna daga að Lewis og Winnett væru sakaðir um að hafa beitt „siðlausum aðferðum við fréttaöflun í Bretlandi“ þegar þeir unnu þar saman á The Telegraph og The Sunday Times.

The Post segir að fyrir liggi að Winnett hafi átt í samskiptum við uppljóstrara sem beitti ólögmætum aðferðum við öflun upplýsinga sem birtust í The Sunday Times. Þá hafi The New York Times sagt frá því að Winnett og Lewis hafi birt fréttir reistar á stolnum gögnum. Þá hafi blaðið spurt nýrra spurninga um hugsanlegar greiðslur fyrir upplýsingar sem leiddu árið 2009 til rannsóknar The Telegraph á spillingu innan breska stjórnkerfisins sem olli miklu uppnámi og leiddi til afsagnar nokkurra embættismanna.

Bent er á að almennt sé litið á það sem brot á siðareglum bandarískra fréttamiðla að greiða fyrir upplýsingar eða látast vera annar en blaðamaður til að komast í trúnaðargögn. Slíkar blekkingar séu ólöglegar í Bretlandi en The Post hefur eftir lögfræðingum að þær kunni að teljast verjanlegar þjóni upplýsingaöflunin almannahagsmunum.

Þá hafa undanfarið birst fréttir um að Lewis hafi reynt að fá blaðamenn ofan af því að segja frá aðild hans að langvinnum réttarhöldum í Bretlandi vegna birtingar frétta sem aflað var með því að brjótast inn í farsíma. Lewis hafnar því að hann hafi reynt að halda aftur af blaðamönnum The Post í þessu skyni. Bandaríski fréttamaðurinn David Folkenflik við NPR (National Public Radio) sagði á samfélagsmiðli að Lewis hefði reynt að fá sig til að falla frá frásögn um málið í skiptum fyrir „einkafrétt“ um breytingaáformin á The Post. Lewis sagði um Folkenflik: Hann er „aðgerðarsinni, ekki blaðamaður“.

Lewis aðstoðaði fyrirtæki Ruperts Murdochs, News International, við að hreinsa til innan fyrirtækisins eftir að upplýst var um farsímastuldinn og mútur til lögreglumanna sem urðu til þess að útgáfu götublaðsins The News og the World varð hætt. Eftir það varð Lewis útgefandi The Wall Street Journal og forstjóri Dow Jones sem eru einnig hluti af fjölmiðlaveldi Murdochs.

Innan fjölmiðlaheimsins er fylgst nákvæmlega með þessum sviptingum öllum. Þær eru til marks um hnignandi mátt þeirra sem nota blaðamennsku sem yfirvarp aðgerðarsinnans sem að baki býr.

Hér hefur slíkt yfirvarp náð að skjóta rótum í ríkismiðlinum í Efstaleiti. Þar er auðveldlega gengt milli aðgerðarmiðilsins Heimildarinnar og fréttastofu ríkisins eins og sannast nú þegar Ingi Freyr Vilhjálmsson er ráðinn frá Heimildinni til að stýra fréttaþætti á gráu svæði í Efstaleiti. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Heimildarinnar, hefur árum saman verið fastagestur í þáttum ríkismiðilsins.

Um viðbrögð fréttamanna ríkisins spyrst ekkert því að útvarpsstjóri hefur bannað starfsmönnum sínum að tjá sig við aðra fjölmiðla um málefni ríkisfjölmiðilsins, nema að fengnu leyfi frá yfirmanni. Nýsettar reglur útvarpsstjóra snúast um háttsemi starfsmanna ríkisútvarpsins er búa að vitneskju um lögbrot og ámælisverða starfsemi.