Þáttaskil í sóttvörnum
Ávallt hefur reynst best að líta fram á veg og það hefur ríkisstjórnin gert í aðgerðum sínum til þessa. Nú er síst af öllu tíminn til að binda sig við baksýnisspegilinn.
Fyrirsögn Staksteina í Morgunblaðinu í dag (28. desember) er: Hált á sóttvarnasvæðinu. Þar segir:
„Bjarni Benediktsson sýndi ámælisverða óvarkárni í Ásmundarsal, að minnsta kosti eftir að fjölgaði í salnum. Á því baðst hann afsökunar, sem sumir taka gott og gilt, aðrir ekki. Þetta var ekki ósvipað hegðun Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands, sem sama dag braut sóttvarnareglur, eða þegar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra faðmaði Seyðfirðinga. Það hefur ýmsum orðið hált á sóttvarnasvellinu og er ekki til eftirbreytni.
• • • •
Vinnubrögð lögreglunnar, sem tók það upp hjá sér að gera fréttamál úr atvikinu með afar óvenjulegum hætti eru einnig ámælisverð. Háðsglósa um „háttvirtan ráðherra“, annarlegar dylgjur um ölvun og kossaflangs, rangar staðhæfingar um aðstæður, og furðuleg undanbrögð þegar fjölmiðlar grennsluðust nánar fyrir, hafa skaðað trúverðugleika hennar. Ekki síður þegar haft er í huga að tvennir fjölmennir tónleikar voru í miðbænum sama kvöld, án þess að það kæmi fram í „Dagbók lögreglunnar“.
• • • •
Afstaða stjórnarandstöðunnar kom ekki mikið á óvart. Það er ekki mjög fréttnæmt að hún vilji stjórnina feiga. Hvað þá tilboð Píratans siðprúða, Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, um að hún styddi minnihlutastjórn Framsóknar og vinstri grænna ef Bjarni og íhaldið hypjuðu sig. Hún var fyrst þingmanna til að vera fundin sek um brot á siðareglum Alþingis, en sagði þó hvorki af sér þingmennsku né formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.“
Sé of margt fólk í verslun eða á veitingastað sæta þeir sem fyrir rekstrinum standa ámæli. Prestur katólsku kirkjunnar fór í sjónvarp og svaraði fyrir fjölda gesta í Kristkirkju á aðfangadagskvöld. Hvers vegna var ekki talið inn í Ásmundarsal?
Í Staksteinum eru tvennir tónleikar í miðborg Reykjavíkur nefndir til sögunnar. Varla var ætlunin að halda þá „fyrir tómu húsi“? Með beinni útsending Kastljóss sjónvarpsins frá Austurstræti snemma að kvöldi Þorláksmessu var fólk ekki hvatt til að sitja heima.
Myndin er frá Almannavörnum og sýnir bóluefnið borið í land úr vélinni frá Amsterdam að morgni 28. desember 2020.
Atvikið í Ásmundarsal var engum til sóma. Það
vekur margar spurningar. Síst kemur þó á óvart að pólitískir andstæðingar
Bjarna Benediktssonar árétti andstöðu við hann og Sjálfstæðisflokkinn.
Hve lengi verður glímt við að svara þessum spurningum kemur í ljós. Í dag urðu þáttaskil í glímunni við farsóttina þegar bóluefni barst til landsins. Ávallt hefur reynst best að líta fram á veg og það hefur ríkisstjórnin gert í aðgerðum sínum til þessa. Nú er síst af öllu tíminn til að binda sig við baksýnisspegilinn.