24.4.2017 11:06

Uppnám í frönskum stjórnmálum

Um áratugaskeið hef ég fylgst með frönskum stjórnmálum og undrast hve oft forystumenn hefðbundnu flokkanna hafa boðið sig fram með loforð um umbætur á vörunum án þess að nokkuð hafi í raun breyst.

Það hlaut að koma að því í Frakklandi að upp úr syði á þann veg að hvorugur hefðbundnu flokkanna sem tekist hafa á um stjórn landsins frá því að fimmta lýðveldið kom til sögunnar undir forystu stríðshetjunnar Charles de Gaulles hershöfðingja árið 1958 fengi kjörinn forseta lýðveldisins. 

Þetta gerðist sunnudaginn 23. apríl þegar Emmanuel Macron (24,1%) og Marine Le Pen (21,3%) fengu flest atkvæði í fyrri umferð forsetakosninganna en frambjóðendum mið-hægri fylkingarinnar sem að þessu sinni barðist undir merkjum Lýðveldisflokksins með François Fillon (20,1%) í broddi fylkingar og Benoît Hamon (6,4%), frambjóðanda Sósíalistaflokksins, var ýtt til hliðar. Jean-Luc Meléchon, frambjóðandi vinstrisinna, fékk 19.58% atkvæða.

Sósíalistinn François Hollande, óvinsælasti forseti í sögu franska lýðveldisins, kallaði Macron til setu sem efnahagsmálaráðherra í ríkisstjórn sósíalista eftir að stjórnin var öllu trausti rúin, ekki síst vegna sósíalískrar efnahagsstefnu sinnar. Macron kom úr bankaheiminum og vildi brjóta ríkis- og regluviðjarnar af frönsku efnahagskerfi, leið ekki á löngu þar til þingmenn sósíalista höfðu fengið nóg af honum. Hann sagði skilið við stjórnina, forsetann og sósíalista og stofnaði eigin stjórnmálahreyfingum sem hann kallaði En Marche! og einfaldast er að íslenska með slagorðinu Áfram! sem Geir Hallgrímsson notaði í borgarstjórnarkosningunum árið 1970.

Um áratugaskeið hef ég fylgst með frönskum stjórnmálum og undrast hve oft forystumenn hefðbundnu flokkanna hafa boðið sig fram með loforð um umbætur á vörunum án þess að nokkuð hafi í raun breyst. Franska stjórn- og ríkiskerfið er þungt í vöfum og dýrt. Ríkt hefur stöðnun í atvinnu- og efnahagslífi þótt tækni hafi fleygt fram á mörgum sviðum. 

Franskt samfélag hefur tekið á sig nýja mynd með fjölgun múslima. Í stórborgum hafa orðið til ný hverfi sem eru í raun heimur eða land út af fyrir sig. Vegna hryðjuverka sem hafa kostað á þriðja hundrað manns lífið á nokkrum misserum ríkja neyðarlög í Frakklandi sem má beita gegn friðhelgi einstaklinga af mikilli hörku sýnist yfirvöldum svo.

Síðasti miðjumaðurinn sem kjörinn var forseti á undan Emmanuel Macron var Valery Giscard d'Estaing. Hann sat aðeins eitt kjörtímabil, var síðan falin forysta við að semja stjórnarskrá Evrópusambandsins sem Frakkar felldu síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir 12 árum, vorið 2005. Frakkar hafa jafnan verið tvíbentir í afstöðu sinni til ESB. Samband þjóðríkja sagði Charles de Gaulle en ekki sambandsríki um hvert stefna skyldi með samvinnu Evrópuþjóðanna.

Næstu tvær vikur verður enn einu sinni tekist á um Evrópumálin í Frakklandi. Emmanuel Macron er eindreginn stuðningsmaður ESB-aðildar en Marine Le Pen vill að Frakkar fái að greiða atkvæði um aðild sína að ESB og segi skilið við evruna.

Frakkar hallast að meirihluta að stjórnmálastefnu sem kenna má við mið-hægristefnu. Persónulegar óvinsældir Nicholas Sarkozys leiddu til ósigurs hans fyrir François Hollande fyrir fimm árum. Spillingarmál urðu François Fillon, forsetaframbjóðanda mið-hægrimanna, að falli núna.

Fillon naut eindregins stuðnings mið-hægrablaðsins Le Figaro í kosningabaráttunni og leiddi það menningarvita og leikara fram á völlinn á lokadögum baráttunnar honum til stuðnings. Allt kom fyrir ekki. Að kosningum loknum segir aðalritstjóri blaðsins í forsíðuleiðara: „það sem ekki var unnt að tapa, tapaðist“.

Hér er forsíða Le Figaro í dag. Les: Rothögg fyrir hægrivænginn.

Franskir mið-hægrimenn hugga sig við að þeir hafi ekki náð að sigra vegna misheppnaðs frambjóðanda. Stefna þeirra standi óhögguð og þeir geti fengið meirihluta á þingi í kosningum til þess í júní. Sósíalistar geta ekki huggað sig við neitt slíkt, frambjóðandi þeirra galt afhroð og stefnan er í molum.