Það verður að semja um veiðigjaldið
Það er örugglega unnt að ná samningum á alþingi um hækkun veiðigjalds á gagnsæjum grunni jafnréttis í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar.
Á ruv.is segir á morgni föstudagsins 27. júní að á fimmtudagskvöldið hafi verið „nokkuð sérkennileg staða“ á alþingi þegar þingforseti gerði hlé á þingfundi og framlengdi trekk í trekk, í um hálfa klukkustund í senn, frá um klukkan átta til miðnættis þegar fundi var að lokum frestað til klukkan tíu í dag.
Þingforsetinn, Þórunn Sveinbjarnardóttir, sagði við fréttastofuna að samtölum yrði haldið áfram í dag en vildi að öðru leyti ekki veita frekari upplýsingar um gang viðræðna. Þingflokksformenn voru þögulir sem gröfin.
Hvað segir þetta okkur? Jú, að þingflokksformenn hafi setið í fjórar klukkustundir á fundi að kvöldi 25. júní til að ræða hvaða mál yrðu afgreidd fyrir sumarhlé þingmanna sem hefst lögum samkvæmt 1. júlí. Þingmenn geta að vísu aftengt lagaákvæðið og haldið áfram þingstörfum án sumarhlés. Það er þó þrautalending, ekki síst vegna starfsliðsins sem stendur að baki þingstörfum án þess að vera kosið til þeirra. Ákvarðanir þess um nýtingu sumarleyfis eru reistar á því að þing og þingnefndir starfi ekki frá 1. júlí til 10. ágúst.
Þorskhaus (mbl/Eggert).
Engin neyð eða aðrir brýnir hagsmunir þjóðarinnar kalla á afgreiðslu veiðigjaldsmálsins fyrir 1. júlí. Þar er um að ræða pólitískt deiluefni sem ráðherrar kynntu upphaflega sem „leiðréttingu“ á veiðigjaldi. Í umræðum um málið hefur komið í ljós að orðið „leiðrétting“ er álíka mikil blekking og krafa Pútins um að kalla stríð hans í Úkraínu „sérstaka hernaðaraðgerð“. Óheiðarleika ráðamanna af þessum toga er auðvelt að afhjúpa. Sé til hans gripið vekur það strax grunsemdir um að þeir hafi eitthvað að fela.
Í Kastljósi sjónvarpsins að kvöldi mánudagsins 23. júní sakaði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra andstæðinga veiðigjaldsfrumvarpsins um að berjast fyrst og fremst „fyrir hagsmunum kannski fjögurra, fimm fjölskyldna í landinu“. Sagðist hún vilja tala „hreint út“ og fór ófögrum orðum um þessar fjölskylduir og sakaði þær um að vilja bara skara eld að eigin köku þótt þær þættust bera hag sjávarútvegssveitarfélaga og íbúa þeirra fyrir brjósti.
Sé þetta kjarni málsins hjá stjórnarsinnum og stuðningsmönnum veiðigjaldsfrumvarpsins þegar þeir tala „hreint út“, gengur ekki upp að setja reglur um stórhækkun skatta en gefa síðan afslætti út og suður til að þeir borgi mest sem eru á skotskífu forsætisráðherrans.
Í grein spyr Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja: „Hvernig má það vera að meirihluti atvinnuveganefndar telur að 92% rúmlega 900 aðila sem greiða veiðigjald, þurfi að minnsta kosti 50% afslátt af fjárhæðinni?“
Það er örugglega unnt að ná samningum á alþingi um hækkun veiðigjalds á gagnsæjum grunni jafnréttis í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Útgerðin greiðir 20% tekjuskatt eins og önnur fyrirtæki en um 13% að auki í veiðigjöld. Könnun sýnir að meirihluti landsmanna telur sanngjarnt hlutfall útgerðarinnar vera um 37% í stað 33% núna. Má ekki semja um hækkun á bilinu 37-40% á fimm árum? Leysa veiðigjaldsfrumvarpið og alþingi úr öngstrætinu?
Það er óskammfeilni hjá stjórnarliðinu að hanga á frumvarpi sem er illa unnið og tjaslað saman á þann veg að kallar á málaferli verði það samþykkt.