Þá var Walesa óvinurinn
Á þennan hátt voru atburðir í öðrum löndum Evrópu tvinnaðir inn í íslensk stjórnmál með það fyrir augum að sverta málstað Bandaríkjamanna og NATO en bera lof á einræðisöflin sem stjórnuðu Sovétríkjunum og leppríkjum þeirra.
Útgáfa á bókinni Kóreustríðið eftir Max Hastings í þýðingu Magnúsar Þórs Hafsteinssonar varð tilefni til að rifja upp að John J. Muccio (1900-1989), sendiherra Bandaríkjanna í Seoul, sem sendi 25. júní 1950 fjarritaboð til Washington um allsherjarinnrás N-Kóreumanna varð í ágúst 1954 sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Þá birti Þjóðviljinn, málgagn kommúnista og sósíalista, frétt með fyrirsögninni: Einn kunnasti samsærismaður Kóreustyrjaldarinnar skipaður sendiherra á Íslandi. Í fréttinni sagði meðal annars: „Hermdu fréttamenn að sendiherra þessi væri engu ástríðuminni fasisti en sjálfur Syngman Rhee [forseti S-Kóreu].“
Það er ekkert nýtt að stundaðar séu upplýsingafalsanir af þessum toga. Í kalda stríðinu voru línur milli andstæðra hópa skýrari en nú á tímum.
Sem dæmi um harkalega dóma um menn og málefni má grípa niður í frétt í Dagblaðinu & Vísi fyrir réttu 41 ári, 15. desember 1981, þar er vitnað í mann sem gekkst upp í því að vera stalínisti, Jón Múla Árnason þul. Honum var mjög í nöp við Lech Walesa, síðar forseta frjáls Póllands, og verkalýðshreyfinguna Samstöðu sem hann leiddi eins og kemur fram í þessum orðum:
„Upp á síðkastið hef ég oft undrazt langlundargeð pólskra kommúnista, án þess þó að dást að því, að vera ekki búnir fyrir lifandi löngu að taka í lurginn á kaþólskum gagnbyltingarsveitum, auðvaldsagentum og fasískum ruslaralýð sem vaðið hefur uppi í nafni Samstöðu.
Ég vona að ráðstafanirnar komi ekki of seint til þess að bæta fyrir skemmdarverk fyrrnefnds hyskis og Pólverjar fái að byggja æ fegurra þjóðlíf undir forystu Kommúnistaflokks Póllands. Hann lengi lifi!“
Jón Múli harmaði að hér á landi stæðu menn með Samstöðu, ekki væri þó við öðru að búast „í miðri herstöð Bandaríkjanna á Atlantshafi“. Eftir því yrði bið að „göfugmennunum, sem nú þykjast bera hag pólsku þjóðarinnar fyrir brjósti, komi til hugar að krefjast þess að bandaríska auðvaldið hypji sig burt af Íslandi með allt sitt hafurtask“.
Á þennan hátt voru atburðir í öðrum löndum Evrópu tvinnaðir inn í íslensk stjórnmál með það fyrir augum að sverta málstað Bandaríkjamanna og NATO en bera lof á einræðisöflin sem stjórnuðu Sovétríkjunum og leppríkjum þeirra.
Einmitt á níunda áratugnum þegar Jóni Múla hraus hugur við vinsældum Lech Walesa og félögum hans í Póllandi var hert á þeim lygaáróðri NATO-andstæðinga hér að kjarnavopn væru í Keflavíkurstöðinni og jafnvel heimtað að flugstöðin sem þá var reist, flugstöð Leifs Eiríkssonar, yrði minni en áformað var til að hindra að þar yrði stjórnstöð fyrir kjarnorkuhernað! Var farið að þeim óskum flokksbræðra Jóns Múla.
Í andstöðunni við upphaflegar hugmyndir um flugstöðina fólst ekki annað en óvild, mótuð af svipaðri heift og birtist í orðum Jóns Múla. Óvildin var færð í friðarbúning eins og þeir gera enn þann dag í dag sem líta á viðbúnað frjálsra þjóða gegn ofríki einræðisafla sem helstu friðarógnina – komast Kremlverjar enn upp með að spila á þær tilfinningar eins og þeir gerðu í aðdraganda gjöreyðingarstríðsins sem þeir heyja nú við Úkraínumenn.