3.6.2020 10:25

Tegnell vildi hafa gert betur í Svíþjóð

Allt sýnir þetta að lengi enn munu sérfræðingar velta fyrir sér hvaða ráð duga best gagnvart óþekktum veirum sem valda heimsfaraldri.

Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svía, sagði í sænska ríkisútvarpinu að morgni miðvikudags 3. júní að of margir hefðu dáið of snemma í Svíþjóð og þar hefði átt að grípa til harðari aðgerða gegn kórónuveirunni.

„Ef við stöndum frammi fyrir sama sjúkdómi aftur með þá vitneskju sem við höfum núna tel ég að viðbrögðin yrðu á milli þess sem gert var í Svíþjóð og hins sem gert hefur verið í öðrum löndum,“ sagði Tegnell.

Á vefsíðunni Local er rifjað upp að í maí hefði Frode Forland, norskur sérfræðingur í smitsjúkdómum, sagt við blaðamann síðunnar að Svíar hefðu setið fastir í áætlunum sem gerðar hefðu verið löngu áður en faraldurinn barst til þeirra og ekki lagað framkvæmdina að því sem síðan gerðist. Veiran hefði nefnilega hagað sér á annan hátt en flensuveirur.

Talið er að takmarkaðar ráðstafanir sem beitt var í Svíþjóð hafi dregið úr útbreiðslu á hefðbundinni flensu og nú virðist COVID-19-bylgjan vera að fletjast út en rúmlega 4.400 manns hafa fallið fyrir veirunni í Svíþjóð, mun fleiri en annars staðar á Norðurlöndunum.

JX5I6ELZHFPULEO2YJKMBLXZWMAnders Tegnell.

Sænsk sóttvarnayfirvöld mæltu sérstaklega með því að hugað yrði að vörnum fyrir þá sem eru eldri en 70 ára. Faraldurinn herjaði þó illa á þann hóp fólks, af þeim sem létust í aldurshópnum var um helmingur á elliheimilum og fjórðungur naut heimaþjónustu.

Í útvarpsviðtalinu sagði Tegnell að vissulega hefði mátt gera betur í Svíþjóð. Það hefði verið gott að vita nákvæmlega hverju átti að loka til að hefta útbreiðslu veiruna betur. Ríki hefðu farið mismunandi leiðir en erfitt væri að átta sig á hvaða aðgerð dugði best. Þetta kæmi ef til vill betur í ljós eftir að bannreglum fækkaði.

Neil Ferguson, breski prófessorinn sem sannfærði Boris Johnson forsætisráðherra um að 500.000 Bretar myndu deyja ef ekki yrði gripið til þess að „loka“ bresku samfélagi, eins og gert var, segir að „árangurinn“ í Bretlandi sé svipaður og í Svíþjóð þar sem frelsi almennings var ekki skert í sambærilegum mæli. Mánudaginn 1. júní höfðu 39.045 dáið í Englandi.

Bretar hófu 28. maí að beita rakningu og var 25.000 manns falið að vera til taks í því skyni að sinna svipuðu hlutverki og rakningarteymið gerði hér á landi. Þá eru Bretar að gera tilraun með smáforrit, app, til að nýta í þessu skyni. Fáir nýta sér þessa þjónustu í Bretlandi ef marka má fréttir.

Allt sýnir þetta að lengi enn munu sérfræðingar velta fyrir sér hvaða ráð duga best gagnvart óþekktum veirum sem valda heimsfaraldri. Nú magnast vangaveltur um hver sé besta leiðin út úr heimsástandinu sem veiran skapaði. Þar koma menn sér ekki saman um eina ákveðna leið eins og sést á boðskap ríkisstjórnar Íslands. Þrýstingurinn á að opna samfélögin eykst þó stig af stigi og rökin fyrir aðhaldi verða marklausari eftir því sem sérfræðingar deila meira um hvað hefði verið rétt að gera í upphafi faraldursins.