13.8.2021 9:42

Talibanar endurheimta völdin

Sigurganga Talibana í Afganistan er sannkölluð hraðferð og standa þeir agndofa sem undanfarin 20 ár töldu sér trú um að í krafti vestræns herafla yrði unnt að snúa Afgönum frá að sætta sig öfgastjórn í nafni islam.

Fréttir bárust í gær (12. ágúst) um að Talibanar, herskáu, bókstafstrúar-múslimarnir, hafi náð næststærstu borg Afganistans, Kandahar, á sitt vald og ráði nú tveimur þriðju hlutum landsins. Í borginni búa um 600.000 manns.

Talibanar stefna til höfuðborgarinnar Kabúl. Stjórnir Bandaríkjanna og Bretlands senda nú þangað herlið til að tryggja örugga brottför Bandaríkjamanna og Breta auk annarra sem binda enda á dvöl sína í Kabúl vegna valdatöku Talibana í landinu.

Sigurganga Talibana í Afganistan er sannkölluð hraðferð og standa þeir agndofa sem undanfarin 20 ár töldu sér trú um að í krafti vestræns herafla yrði unnt að snúa Afgönum frá að sætta sig öfgastjórn í nafni islam.

Vissulega flýja tugir þúsunda manna undan Talibönum innan Afganistans og leita sér skjóls á svæðum sem þeir ráða ekki en almenn andstaða birtist ekki við valdatöku þeirra. Dýrkeypt tilraun til að uppræta stjórnarhætti sem eru eitur í beinum okkar Vesturlandabúa mistókst hrapallega í Afganistan.

Files-us-afghanistan-conflict-taliban-refugeeMyndin er tekin í útjaðri Kandahar í Afganistan 12. ágúst 2021 og sýnir fólk sem flúið hefur heimili sín í von um að losna undan grimmd Talibana.

Eins og jafnan er leitað að sökudólg og nú er Bandaríkjastjórn skömmuð fyrir að fara rangt að við brottflutning herafla síns frá landinu. Ákvörðun um hann var tekin af Donald Trump forseta og Joe Biden hefur ekki kvikað frá henni. Miðað er við daginn 11. september 2021 þegar 20 ár verða liðin frá árás öfgafullra islamista á tvíburaturnana í New York og Pentagon í Washington. Talibanar réðu þá í Afganistan og hryðjuverkamenn áttu þar griðastað. Herferðin gegn þeim hófst með gífurlegum árásum langdrægra bandarískra sprengjuvéla og magnaðist síðan stig af stigi. Bandamenn Bandaríkjamanna lögðu þeim lið. Aðeins einu sinni í 72 ára sögu NATO hefur 5. gr. sáttmála bandalagsins, árás á einn er árás á alla, verið virkjuð: eftir árásina 11. september 2001. Herafli var undir merkjum NATO í Afganistan, meðal annars með þátttöku Íslendinga, nú er hann allur á brott.

Reynslan frá Afganistan og síðan Írak, þar sem einræðisherra var velt úr sessi með bandarísku hervaldi, sýnir að vonlaust er fyrir vestræn ríki að innleiða eigin stjórnarhætti í löndum múslima. Þar verða þjóðir einfaldlega að fá að ráða örlögum sínum sjálfar.

Stefnan sem á ensku er kennd við state building hefur misheppnast í Afganistan og Írak. Það hefur mistekist að skapa nægilegt öryggi í löndunum til að öflugar stjórnarstofnanir heimamanna stuðli að friðsamlegri pólitítískri, efnahagslegri og samfélagslegri þróun án þess að styðjast við erlent hervald. Sú skipan hlýtur að taka enda eins og nú í Afganistan.

Stjórnin í Kabúl bauð Talibönum fimmtudaginn 12. ágúst aðild að stjórn landsins en fékk ekkert svar. Sama dag tilkynntu mörg ríki, þar á meðal Bandaríkin, Rússland og Kína, að þau myndu ekki viðurkenna ríkisstjórn í Afganistan sem kæmist til valda í krafti hervalds.

Friðarviðræður við fulltrúa Talibana í Doha eru sýndarmennska. Talibanar ætla að ná völdum í Afganistan. Hótanir erlendra stjórnarerindreka hrína ekki á þeim. Viðskipti þeirra við umheiminn eru hvort sem er eftir leynilegum smyglaraleiðum. Þeir vilja ná Afganistan í greip sína að nýju og tekst það.