24.10.2021 12:12

Tævan, Kína og Krugman

Krugman segir að vissulega hafi kínverskum ráðamönnum tekist að sigla í gegnum efnahagslega brimskafla en nú virðist þeir horfa fram hjá raunverulegum váboðum.

Fréttir um ögranir Kínastjórnar í garð Tævan lofa ekki góðu um framhaldið. Sérfræðingar í kínverskum málefnum lýsa í viðtölum við fjölmiðlamenn mismunandi sviðsmyndum hertöku Kínverja á eyjunni. Joe Biden Bandaríkjaforseti svaraði játandi spurningu fréttamanns um hvort Bandaríkjaher mundi verja Tævan en starfsmenn forsetans ruku upp til handa og fóta til að árétta að í svari forsetans fælist ekki breyting á stefnu Bandaríkjamanna um að þeir legðu Tævönum lið til sjálfsvarnar.

Á strönd meginlands Kína í innan við 200 km fjarlægð frá Tævan eykst vígbúnaður jafnt og þétt. Á bandarísku gervihnatta-vefsíðunni The Drive má sjá að unnið er að því að stækka þrjár stærstu herstöðvarnar á strönd Kína. Nýjar flugbrautir, flugskýli og sprengjugeymslur má sjá í herstöðvunum Longtian og Huian. Þær eru báðar í innan við 200 km fjarlægð frá Tævan, í beinni fluglínu eins og milli Reykjavíkur og Kirkjubæjarklausturs (192 km). Þá benda gervihnattarmyndir til þess að unnið sé að gerð loftvarnakerfis gegn flugskeytum í þriðju herstöðinni, Zhangzou. Nú í ágúst sagðist Kínastjórn ætla að leggja nýjan flugvöll í Pingtan, aðeins í 160 km fjarlægð frá Taipei, höfuðborg Tævans.

InkdexVandi Evergrande sjúkdómseinkenni kínversks efnahagslífs.

Nóbelsverðlaunahafinn, hagfræðiprófessorinn og dálkahöfundurinn Paul Krugman birti 22. október hugleiðingu um efnahagsástandið í Kína í The New York Times (NYT) sem hann telur á hættulegu stigi vegna ofurfjárfestinga í fasteignum. Hann segir svartsýnar spár um þróun kínverskra efnahagsmála ekki nýjar og sjálfur hafi hann spáð árið 2013 að hagvaxtarlíkan Kína væri ósjálfbært og við blasti hörð lending sem ekki varð. Við nánari athuganir á því hvernig Kínastjórn hafi tekist að halda efnahagslífinu gangandi sé erfiðara að skilja gangverkið. Breitt sé yfir vandann með risavaxinni fasteignablöðru og erfitt að sjá endalok þess.

Krugman vísar í skýrslu frá 2020 sem sýni að fjárfestingar Kínverja í fasteignum séu mun meiri en varð í Bandaríkjunum í fasteignablöðrunni þar í upphafi aldarinnar. Þá sé fasteignaverð í Kína ótrúlega hátt miðað við tekjur og fasteignamarkaðurinn skipi ógnvekjandi stóran sess í kínversku efnahagslífi. Fjárhagsvandi fasteignarisans Evergrande sé aðeins fyrirboði víðtækari efnahagsvanda.

Krugman segir að vissulega hafi kínverskum ráðamönnum tekist að sigla í gegnum efnahagslega brimskafla en nú virðist þeir horfa fram hjá raunverulegum váboðum og fasteignablaðra þeirra magni aðeins vandann.

Hann spyr hvers vegna þeir sem eru utan Kína ættu að hafa áhyggjur af þessu. Kínversk efnahagstengsl við umheiminn séu þess eðlis að vandræði Evergrande í Kína verði ekki endilega að heimsvanda eins og varð við fall Lehmans-banka í Bandaríkjunum fyrir 11 árum.

Krugman minnir í lokin á að einræði ríki í Kína, þar sé stjórn sem hefði við aðrar sögulegar aðstæður hneigst að því að bregðast við eigin vandamálum á heimavelli með því að leita að andstæðingi utan landamæra sinna. Kína sé risaveldi. Ekki sé vandasamt að semja hryllingssögur um til hvers þetta allt kunnu að leiða.