24.7.2022 11:13

Tæplega 60.000 erlendir ríkisborgar

Nú meira en 6 milljónir Venesúelabúa landflótta um heim allan  Hér er um að ræða annan mesta stórvanda vegna búferlaflutninga í heiminum.

Í fréttum ríkisútvarpsins var sagt frá því í morgun (24. júlí) að erlendum ríkisborgurum sem skráðir eru með búsetu hér á landi hefði fjölgað um 7,5% frá því í desember í fyrra.

Alls voru rúmlega 59 þúsund erlendir ríkisborgarar skráðir með búsetu hér á landi 1. júlí 2022 og fjölgaði þeim um rúmlega fjögur þúsund frá fyrsta 1. desember 2021. Úkraínskum ríkisborgurum fjölgaði mest eða um 490 prósent á tímabilinu. Þá fjölgaði pólskum ríkisborgurum um tæplega 600 og eru nú meira en 22 þúsund pólskir ríkisborgarar búsettir hér á landi. Það er tæplega 6% landsmanna.

Frá janúar til og með apríl 2022 sóttu 877 Úkraínumenn um vernd hér á landi samkvæmt tölfræði útlendingastofnunar, fyrstu umsóknirnar bárust í febrúar 2022 eftir að Pútin gaf fyrirmæli um innrásina í Úkraínu. Fólkið sem hingað sækir leitar skjóls undan stríði. Þessa sömu mánuði leituðu síðan 265 manns frá Venesúela verndar hér og 40 frá Palestínu, hælisleitendur frá öðrum löndum voru undir 20 frá hverju landi á þessum tíma.

5be400883Flóttamenn frá Venesúela.

Fólksstraumurinn frá Venesúlea hingað til lands vekur athygli. Kemur fólkið yfirleitt fyrst til Evrópu í Madrid.

Fyrir fimm árum birtu sjónvarpsstöðvarnar CNN og CNN en Español niðurstöðu rannsóknar sem reist var á upplýsingum frá uppljóstrara um að embættismenn í sendiráði Venesúela í Bagdad, höfuðborg Íraks, seldu vegabréf og vegabréfsáritanir til fólks í Mið-Austurlöndum (einkum frá Sýrlandi, Palestínu, Íran, Írak og Pakistan) með vafasaman feril að baki, þar á meðal félaga í Hezbollah-hreyfingunni í Líbanon. Væru vegabréfin verðlögð á bilinu 5.000 til 15.000 dollara. Verðmæti þeirra fælist ekki síst í því hve handhafar þeirra gætu ferðast til margra landa án vegabréfsáritana.

Viðbrögð stjórnvalda í Venesúela við þessum fréttum voru mjög harkaleg og var starfsemi CNN en Español bönnuð þar 24. febrúar 2017 tveimur dögum eftir að Nicolas Maduro, forseti Venesúela, sagði við CNN „hypjið ykkur héðan“. Sagði ríkisstjórnin að fréttir CNN um þetta mál væru „ógn við frið og lýðræðislegan stöðugleika“ í landinu þar sem þær græfu undan umburðarlyndi meðal landsmanna ýttu undir trúarlegt hatur, kynþáttahatur, pólitískt hatur, ofbeldi og annað í þá veru.

Nágrannaríki Venesúela í norðri Panama, Honduras, Gualtemala, Mexíkó, Costa Rica og Belize krefjast vegabréfsáritunar af þeim sem bera vegabréf frá Venesúela. Áritunarkrafa gildir hins vegar ekki fyrir þá sem fara inn á Schengen-svæðið. Standa Spánverjar gegn því að slík krafa sé gerð.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segir að fólk yfirgefi Venesúela til að bjarga sér undan ofbeldi, öryggisleysi og ógnunum fyrir utan skort á mat, lyfjum og grunnþjónustu. Nú séu meira en 6 milljónir íbúa landsins landflótta um heim allan en langflestir í Rómönsku Ameríku og við Karabíska hafið. Hér sé um að ræða annan mesta stórvanda vegna búferlaflutninga í heiminum.

Stjórnendur Rússlands, Írans, Venesúela og Norður-Kóreu sækjast eftir vináttu hver við annan og njóta blessunar frá Peking.