Tækifærismennska Viðreisnar
Þessi tillaga Viðreisnar er ekki um öryggis- og varnarmál þótt Hanna Katrín segi það í blekkingarskyni.
Hanna Katrín Friðriksson, formaður þingflokks Viðreisnar, ræðir stríðið í Úkraínu í grein í Morgunblaðinu í dag (19. mars). Hún segir réttilega að þar vegi Pútin að gildum lýðræðis, frelsis og réttarríkisins. Síðan segir hún:
„Það er því dapurlegt að heyra málflutning hér á landi um að nú sé ekki rétti tíminn til að ræða öryggis- og varnarhagsmuni Íslands.“
Forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafa sótt hvern fundinn erlendis eftir annan til að ræða þessi mál. Forsætisráðherra sat fjarfund 25. febrúar með ríkisoddvitum NATO-landanna auk Svía, Finna og fulltrúa ESB. Ráðherrann hitti framkvæmdastjóra NATO í Brussel 2. mars og sat leiðtogafund JEF-ríkja, samstarfshóps 10 ríkja um viðbragðsherafla, í London 15. mars. Í næstu viku koma ríkisoddvitar NATO-ríkjanna saman til fundar í Brussel.
Utanríkisráðherra tekur ekki aðeins þátt í utanríkisráðherrafundum heldur einnig fundum varnarmálaráðherra og hefur gert það bæði í Brussel og London undanfarið.
Fyrir utan samráð við utanríkismálanefnd alþingis hefur utanríkisráðherra að minnsta kosti tvisvar haft frumkvæði að munnlegri skýrslugjöf til alþingis um stríðið í Úkraínu. Ráðherrann ræddi auk þess skýrslu sína um utanríkis- og alþjóðamál á alþingi 10. mars s.l. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sagði meðal annars í ræðu sinni þá
„Versnandi staða öryggismála hefur haft í för með sér aukin verkefni bandalagsríkja á Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum, og aukið umfang starfseminnar á öryggissvæðinu í Keflavík.“
Á fundi sem Þórdís Kolbrún sat sem varnarmálaráðherra í Brussel miðvikudaginn 16. mars var ákveðið að endurræsa sameiginlegar varnir bandalagsþjóðanna og styrkja fælingarmátt þeirra til lengri tíma. Boðað var að þetta yrði gert á landi, sjó og í lofti en auk þess í netheimum og geimnum. Innan herstjórna NATO er nú unnið að því að útfæra hugmyndirnar sem samþykktar voru á fundinum og er stefnt að því að þeim verði hrundið í framkvæmd að loknum fundi ríkisoddvita NATO-ríkjanna í Madrid í sumar.
Ekkert af þessu bendir til þess að ríkisstjórn
eða ráðherrar vilji ekki ræða þessi mál heima og erlendis eða á alþingi. Hanna
Katrín segir þó í fyrrnefndri grein „grafalvarlegt“ þegar reynt sé að „þagga
umræðu“ um grundvallarhagsmunamál Íslands. Hver reynir það þegar um öryggis- og
varnarmálin er að ræða? Þessu svarar Hanna Katrín ekki í grein sinni.
Þegar betur er að gáð snýst grein þingflokksformannsins raunar alls ekki um varnar- og öryggismál heldur þá tillögu Viðreisnar að metnir séu kostir þess „að stíga lokaskrefið að fullri aðild að Evrópusambandinu“.
Þessi tillaga er ekki um öryggis- og varnarmál þótt Hanna Katrín segi það í blekkingarskyni. NATO er sameiginlegi vettvangur ESB-ríkjanna þegar um þau mál er rædd vegna stríðsins í Úkraínu.
Í upphafi greinar sinnar kvartar Hanna Katrín undan að Viðreisn sé gagnrýnd fyrir „tækifærismennsku“ vegna tillögu sinnar. Gagnrýnin snýr að tilrauninni til að nota stríð sem „tækifæri“ til að flagga ESB-aðildarstefnunni að ástæðulausu.