17.5.2020 14:34

Tækifæri á hverju strái

Tækifærin eru fleiri en ætla má við fyrstu sýn. Galdurinn er að kunna að nýta þau og öll alþjóðatengslin.

Fyrir ári stóðu þingmenn Miðflokksins dag og nótt í ræðustól alþingis og ræddu hver við annan um hættuna af 3. orkupakkanum. Þótt ekki væri um heimsfaraldur að ræða var meira rætt um þetta mál á þingi en COVID-19-faraldurinn núna. Sannaðist þar að menn geta sett á langar ræður um innihaldslítil pólitísk málefni sem snerta þegar á reynir hagsmuni fárra. Þingmenn sæta hins vegar þungri gagnrýni og ámæli ef þeir tefja fyrir afgreiðslu mála sem miklu skipta og snerta í raun þjóðarhag.

Þegar kórónuveiran hélt innreið sína hér á landi heyrðust gagnrýnisraddir sem sumar komu úr sömu átt og andstaðan við 3OP í fyrra. Þessar raddir náðu í raun aldrei eyrum þjóðarinnar enda hvorki flokkspólitískar né í skjóli einhvers fjölmiðils. Þá kom einnig fljótt í ljós að ráð sóttvarnalæknis, aðgerðir landlæknis og almannavarna voru á þann veg að öll gagnrýni mátti sín lítils. Vegna þess hve vel gekk að hafa hemil á veirunni hér er líklegt að eftir-á-spekingar gangi fram og segi ríkisstjórn hafa gripið til allt of umfangsmikilla efnahagslegra aðgerða.

Almennt má segja að fyrir stjórnvöld sé skynsamlegt að ganga eins langt og frekast er unnt til að forða tjóni eða draga úr líkum á því þegar vá er sögð fyrir dyrum. Í þessu tilviki var hættan ekki aðeins sögð banvæn fyrir þá sem verst yrðu úti heldur gæti hún einnig rústað heilbrigðiskerfinu.

Hvort heldur litið er til mannfalls vegna COVID-19 eða stöðu heilbrigðiskerfisins stóðst íslenska stjórnkerfið áhlaupið, um það verður ekki deilt. Ástæðulaust er hins vegar að ofmetnast því að spáð er annarri lotu og hún geti ekki síður verið erfið. Óvissuástand ríkir þar til bóluefni er fundið, takist á annað borð að finna það. Þeir sem leita minna á að aldrei hafi fundist bóluefni gegn venjulegu kvefi. Það sé alls ekki sjálfgefið að nægilega öflugt bóluefni finnist.

Sof-modell_03_gicon_schwimmende_windraederFljótandi vindmyllum fjölgar víða um heim.

Að þetta er heimsfaraldur minnir á að ekki nægir til sigurs að hafa stjórn á málum hér. Við höfum ekki leyfi til að vera í rónni fyrr en nágrannaþjóðirnar eru komnar á betra ról. Fréttir frá Bretlandi og Bandaríkjunum benda til þess að þar eigi menn enn nokkuð langt í land. Frá þessum löndum hafa einna flestir ferðamenn komið hingað undanfarin ár. Hve lengi verða þau lokuð?

Þegar svarið við spurningunni liggur fyrir skýrist framtíð íslensks efnahags- og atvinnulífs. Reynsla undanfarinna mánaða sýnir að samhliða því sem við hugum að varðveislu grunnþátta matvæla- og orkuframleiðslu ber að leggja rækt við tengsl við nágrannaþjóðir og bandamenn.

Það á að leggja enn meiri áherslu en áður á að raf- og vetnisvæða samgöngu- og flutningatæki til að minnka þörf á innfluttum orkugjöfum. Í því sambandi ber að líta á smáorkuver, vatns, gufu, vinds og sólar. Þá ber skipulega að stuðla að jarð- og garðrækt. Líta má á þetta allt sem hátækniiðnað þar sem þjarkar (vélmenni) létta manninum störfin. Búfjár- og fiskirækt skipta meiru en oft er af látið.

Tækifærin eru fleiri en ætla má við fyrstu sýn. Galdurinn er að kunna að nýta þau og öll alþjóðatengslin.