24.2.2023 10:06

Sýnum Pútin í tvo heimana

Pútin skilur og óttast aðeins hervald. Við tómarúm missir hann stjórn á freistingum sínum.

Fyrir einu ári þegar Vladimir Pútin Rússlandsforseti gaf rússneska hernum fyrirmæli um að leggja undir sig Úkraínu sá enginn fyrir að nú, 24. febrúar 2023, hefði forsetinn mátt þola ósigur á ósigur ofan og gæti ekki stært sig af neinu öðru í tilefni tímamótanna en að hann eignaðist sífellt ógnvænlegri flaugar til að flytja kjarnavopn.

Zelenskyy-war-anniversary-ceremony-ap-230_hpEmbed_20230224-041915_3x2_992Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti við minningarathöfn á Sofia-torginu í Kyív að morgni föstudags 24. febrúar 2023.

Þannig er þó málum háttað. Full ástæða er til að trúa Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseta þegar hann segir nú að þjóð sín muni standa innrásina af sér og ekki una sér hvíldar fyrr en hún ráði yfir öllu landi sínu.

Saga 20. aldarinnar geymir mörg dæmi um langvinn blóðug átök þegar nýlenduveldi neyðast til að hverfa frá yfirráðum sínum. Átökin bitna ekki aðeins á saklausu fólki á stríðssvæðum heldur rista þau djúpt í höfuðborgum hnignandi nýlenduvelda og valda ágreiningi þar.

Séu átökin í Úkraínu sett í nýlendumynstrið geta þau staðið lengi á landamærum Rússlands og Úkraínu. Áhrif þeirra minnka ekki innan Rússlands sjálfs eftir því sem þau dragast á langinn. Rússar sætta sig við alræði og harðstjórn, að minnsta kosti um ákveðinn tíma, sem lýðræðisþjóðir gera ekki. Bera má saman ástandið í Frakklandi á tíma Alsírstríðsins á árunum 1954 til 1962 og í Rússlandi núna þar sem Pútin saumar jafnt og þétt að frelsi almennra borgara.

Rússlandsforseti þarf þó eitthvað annað sjálfum sér til dýrðar en sívaxandi mannfall í eigin liði og árásir á almenna borgara í Úkraínu. Straumur líkpokanna af vígellinum til Rússlands verður að lokum til þess að grafa svo undan valdi Pútins að honum dugar ekki lengur að gorta sig af kjarnavopnunum. Þeir ráðamenn sem þannig láta eru einfaldlega komnir upp að vegg.

Sé spurt um helsta lærdóminn af stríðinu í Úkraínu, vilji menn hindra svipuð átök annars staðar, er svarið einfalt: Pútin skilur og óttast aðeins hervald. Við tómarúm missir hann stjórn á freistingum sínum.

Á þetta hefur verið rækilega minnt í vikunni. Joe Biden Bandaríkjaforseti hitti leiðtoga níu NATO-ríkja á austurvæng bandalagsins í Varsjá miðvikudaginn 22. febrúar og hét þeim að ekki yrði gefinn eftir þumlungur af landsvæði NATO-ríkis í nágrenni Rússlands.

Innrásin í Úkraínu hefur gjörbreytt allri skipan öryggismála í Evrópu. Línan milli austurs og vesturs var dregin þvert í gegnum Þýskaland, fyrir vestan Tékkóslóvakíu, Ungverjaland og Júgóslavíu og milli Júgóslavíu og Búlgaríu í norðri og Grikklands og Tyrklands í suðri. Í vestri og suðri var NATO en Sovétríkin og leppríki þeirra í austri og norðri.

Nú vilja NATO-ríkin níu að línan sé dregin við landamæri Rússlands og Belarús með öflugum framvörnum á borð við þær sem voru í Vestur-Þýskalandi á sínum tíma þegar bandarískir hermenn þar voru allt að 300.000.

Þetta er nýja myndin eftir stríðið samhliða því sem Úkraínumenn vígbúast þannig að Rússar þora ekki að hreyfa sér gegn þeim. Með aðild Finna og Svía að NATO nær nýja varnarlínan mun norðar en áður.

Jafnframt þessu verður tryggt að Evrópa verði aldrei háð gasi frá óvinveittu Rússlandi.

Í þessa átt stefnir og vonandi næst markmiðið fyrr en síðar.